Ilmandi súrdeigsbrauð úr nýmöluðu lífrænu korni frá Frakklandi koma úr fyrsta íslenska viðarhitaða brauðofninum á Böggvisstöðum í Svarfaðardal við Dalvík. Í næsta mánuði opna hjónin Ella Vala Ármannsdóttir og Mathias Julien Spoerry bakarí þar sem boðið verður upp á nokkrar tegundir af súrdeigsbrauðum. Bakaríið heitir Böggvisbrauð.
Brauðofninn sem er sá fyrsti sinnar gerðar á Íslandi, er smíðaður að franskri fyrirmynd og er efniviðurinn einnig fenginn þaðan. Ofninn er kyntur með birki sem safnað er úr næsta nágrenni og úr Vaglaskógi í Fnjóskadal. Ofnasmíðin tók mánuð og kom sérfræðingur í gerð slíkra ofna til Íslands til að hafa yfirumsjón með smíðinni. Sá heitir Vincent Chesneau. Mathias kynntist slíkum viðarofni í bakaranámi sínu í Frakklandi og ákvað að smíða sér einn slíkan.
„Brauðið verður mikla betra. Það endist lengur og næringagildin haldast betur því hveitið er nýmalað,“ segir Mathias. Hann vill búa til brauð úr fyrsta flokks hráefni, því ákvað hann að flytja inn steinmyllu frá Frakklandi til að mala hveitikornið í brauðbaksturinn. Í brauðið er eingöngu notað nýmalað lífrænt hveiti, án íblöndunarefna, til að varðveita öll góð steinefni og vítamín, sem annars tapast úr hveitinu með tímanum.
Ofninn er dýr og því ákváðu þau hjónin að freista þess að biðla til almennings og safna fyrir honum á Karolina Fund. Það gekk eftir. Kostnaður víð smíðina var 3,5 milljónir króna en tvær milljónir króna söfnuðust. Framkvæmdir hófust í október og fyrsta brauðið kom úr ofninum 8. apríl.
Mathias er ákaflega þakklátur fyrir stuðninginn og allan áhuga á framkvæmdunum. Til að mynda setti samlandi Mathiasar sig í samband við þau eftir að hafa séð verkefnið á Karolina Fund en hann var nýfluttur til Íslands nánar tiltekið á Árskógsströnd. Hann vildi ólmur hjálpa til við smíðina sem og hann gerði. „Það var mjög skemmtilegt,“ segir Ella Vala og bætir við „það eru allir svo spenntir fyrir þessu og finnst þeir eiga í þessu með okkur sem þeir eiga,“ segir hún ánægð. Hún segir sveitunga þeirra duglega að hrósa þeim fyrir framtakið og þeir lýsa einnig ánægju sinni með að þau hafi flutt í sveitina.
Þau hjónin fluttu til Íslands og norður á Böggvisstaði fyrir fimm árum. Leiðir þeirra lágu saman í Basel í Sviss. Þau eru bæði tónlistarkennarar og virkir tónlistarmenn. Mathias er söngvari að mennt og með meistaragráðu í miðaldatónlist og Ella Vala er með meistaragráðu í hornleik frá Basel í Sviss. Ella Vala er frá Laugasteini í Svarfaðardal en flutti þaðan 13 ára. Hún bjó í um 10 ár í útlöndum meðal annars í Þýskalandi og Sviss. Mathias er frá Suðvestur Frakklandi nálægt Baskalandi og Pýrenafjöllum.
Ella Vala var ákveðin í að flytja aftur í Svarfaðardalinn ef hún flytti aftur heim til Íslands. Skömmu áður en þau ákváðu að flytja til Íslands keypti systir Ellu Völu, Unnur Hafstað, Böggvisstaði í Svarfaðardal. „Hún bauð okkur að kaupa hluta af húsinu sem var ónýttur sem háaloft og gera okkur þar íbúð, og við gerðum það,“ segir hún. Seinna bauðst þeim annar hluti í húsinu þar sem þau innréttuðu fyrir bakarí. Húsakostur á Böggvisstöðum er góður en húsið var þjónustuhúsnæði fyrir minkabú á níunda áratugnum.
Það hefur verið og er mikil og frjó starfsemi á Böggvisstöðum. Síðan minkabúið lagði upp laupana meðal annars skemmtistaður, líkamsræktarstöð, spinning-salur og bifreiðaverkstæði svo eitthvað sé nefnt. Í þessum skrifuðu orðum er í kjallaranum smíðaverkstæði sem Rúnar Búason húsasmíðameistari er eigandi að. Mæðgurnar Unnur og Sigríður Björk hafa verið með Yoga-kennslu í vetur en Unnur hefur einnig verið með saumastofu í húsinu, sápugerð og pokastöð. Nýverið kom leigjandi í húsið, gítarleikarinn Örn Eldjárn, sem hefur sett upp glæsilegt hljóðver og er að taka upp sitt fyrsta verkefni nú um páskana. Möguleikar hússins virðast óþrjótandi. Svo búa í húsinu tveir hundar og kötturinn Köttur.
Ella Vala er ánægð að vera flutt aftur heim. „Þetta er öðruvísi líf en í Basel. Hér er maður miklu tengdari við allt samfélagið,“ segir hún. Þau eru með marga bolta á lofti og lífið er fjölbreytt. Hún spilar með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og er tónlistarkennari bæði á Akureyri og á Dalvík.
Mathiasi leist strax vel á Ísland eftir nokkrar stuttar heimsóknir og hélt á lofti hugmynd um að flytjast þangað. Þegar Ellu Völu bauðst full staða við Tónlistarskólann á Akureyri slógu þau til og fluttu sig um set. Fljótlega eftir að hann kom til landsins fannst honum erfitt að finna gott brauð og því hófust tilraunir hans í brauðbakstri. Rík brauðmenning er í Frakklandi og fann hann það fljótt að ólíku er saman að jafna þegar kemur að brauði í löndunum tveimur.
„Fólki fannst brauðið mitt gott og ég hélt áfram að baka,“ segir hann. Hann heillaðist af súrdeigsbakstri og ákvað að læra til bakara. Hann lærði í skorpum í Frakklandi og einnig hér heima og þreytti próf til bakara í Frakklandi sem hann náði með glæsibrag.
„Ég lærði hjá fólki sem notar svona viðarhitaðan ofn og fannst brauðið mjög gott,“ segir Mathias. Fljótlega kviknaði sú hugmynd að opna bakarí hér heima. „Þetta er ástríða mín og ég vildi taka þetta alla leið,“ segir Mathias og hlær. Úr varð að hann vildi fá besta mögulega ofninn og fá besta hráefnið til brauðbaksturs sem skilaði í næringaríku brauði. Hann kaupir hveitikornið af bónda í Frakklandi sem notar gamalt afbrigði af hveitiplöntunni sem kallast "heritage wheat" en það gefur af sér næringarríkara og auðmeltara korn en nútíma-hveitiafbrigði. Súrdeigsbrauð með þessari tegund hveitis, hefur því getið af sér gott orð fyrir neytendur með glútenóþol, að sögn Mathiasar.
„Mér finnst mikilvægt að hitta fólkið sem ég baka fyrir og spjalla við það,“ segir Mathias. Hann vill stuðla að heilsusamlegra lífi íbúana í kring með því að bjóða upp á holla og næringaríka vöru. Hugmyndin er fyrst og fremst sú að þjónusta íbúana í nágrenninu.
„Við munum vera með stað á Dalvík og Akureyri þar sem viðskiptavinir okkar geta sótt brauðin sín einu sinni í viku ef ekki beint í bakaríið. Við höfum svo áhuga á að baka fyrir skólana í Dalvíkurbyggð þegar fram í sækir. Ef það nægir ekki þá mögulega leitum við í samstarf við ferðaþjónustu á svæðinu en fyrst og fremst langar okkur að íbúar njóti góðs af bakaríinu því þetta er samfélagsverkefni,“ segir Ella Vala.
Mathias tekur fram að þau ætli að byrja smátt og passa að færast ekki of mikið í fang. Boðið verður upp á fáar tegundir af brauði í upphafi. Fyrirséð er að í maí geti fólk ýmist pantað vikulega í síma eða á facebook síðu bakarísins og í framhaldinu geti skráð sig í brauðáskrift.
Mathias er gríðarlega ánægður með viðtökurnar. Hann hefur undanfarið unnið að því að baka fyrir þá sem styrktu verkefnið og ekki er annað að sjá en að fólki líki vel brauðið.
„Það var ekkert mál að komast inn í samfélagið,“ segir hann spurður hvernig honum líki að búa á Íslandi. Hann segir sér hafi verið mjög vel tekið strax frá upphafi í samfélaginu. Um leið og hann kom til landsins lærði hann íslensku og er vægast sagt mjög flinkur að beita tungumálinu.
Hann fékk vinnu í tónlistarskólanum á Dalvík og kennir krökkum frá 6 ára aldri og upp úr. „Krakkarnir eru mjög góðir kennarar. Börnin þora alveg að segja mér ef ég segi eitthvað vitlaust. En fullorðnir gera það ekki. Þeir hugsa frekar: „æ, hann er að læra og reyna að segja þetta rétt”,” segir hann og hlær.
Mathías stýrir einnig kvennakórnum á Dalvík. „Það er mjög gaman. Þær eru skemmtilegar og syngja mjög vel,“ segir hann. Hann fer einnig reglulega til útlanda ýmist til Frakklands og Þýskalands að sinna tónlistarferli sínum. Næsta verkefni er að finna „balans“ í öllum þessum verkefnum; að stofna bakarí, sinna tónlistarkennslunni, tónlistarferlinum og fjölskyldunni.