Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu lauk síðdegis rannsókn á vettvangi þar sem eldsvoðinn varð í Dalshrauni í Hafnarfirði í gær. Vettvangurinn hefur nú verið afhentur tryggingafélagi. Þetta staðfestir Sævar Guðmundsson aðalvarðstjóri í Hafnarfirði í samtali við mbl.is.
Sævar segir að ekkert hafi bent til þess að saknæm háttsemi hafi átt sér stað. Eldsupptök eru enn ókunn.
Frá því var sagt í gær að ekki lægi fyrir hvort húsnæðið þar sem eldurinn kviknaði væri viðurkennt húsnæði eða ekki. Aðspurður sagðist Sævar ekki vita hvort svo væri eða ekki en sagðist vita að gistiaðstaða hefði verið um nokkurn tíma í húsinu.