Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar í dag vettvanginn þar sem eldsvoðinn varð í Dalshrauni í Hafnarfirði í gær.
Sævar Guðmundsson aðalvarðstjóri staðfestir þetta en segir óljóst hvenær hún mun ljúka störfum. Óljóst er hvað olli eldsvoðanum.
25 herbergi eru á efri hæð byggingarinnar og að sögn Sævars urðu umtalsverðar skemmdir á þeim. Einhvern tíma mun taka að lagfæra húsnæðið.
Um 50 manns bjuggu í herbergjunum og var stór hluti þeirra fjarverandi vegna páskafrís þegar eldsvoðinn varð. Innan við 20 manns fengu gistiúrræði í nótt í gegnum Rauða krossinn, auk þess sem einhverjir fengu gistingu hjá vinum og ættingjum.