Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir gríðarlega alvarlegt að fyrirtæki skuli boða verðhækkanir á meðan á atkvæðagreiðslu um kjarasamninga stendur. Hún segir að þetta megi skilja sem svo að umrædd fyrirtæki séu að senda þau skilaboð að verði kjarasamningar samþykktir, þá hækki verð.
Greint var frá því fyrir helgi að ÍSAM, heildsölu- og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, ORA og Kexverksmiðjuna Frón, boði hækkun á öllum vörum fyrirtækjanna. Í tilkynningu frá þeim um hækkunina var fyrirvari um samþykkt kjarasamninganna, sem verið er að greiða atkvæði um hjá öllum 18 stéttarfélögunum innan Starfsgreinasambandsins. Kosningunni lýkur kl. 23 á morgun.
„Þetta er gríðarlega alvarlegt inngrip í ferli kjarasamninga,“ segir Drífa í samtali við mbl.is. „Ég veit ekki alveg á hvaða vegferð þessi fyrirtæki eru,“ segir hún. Hún telur augljóst að með þessu sé verið að reyna að senda sterk skilaboð, nefnilega þau að fyrirtækin telji þessa samninga úr hófi.
Þau skilaboð segir hún ósanngjörn. „Það er ansi forhert þegar launafólk hefur slegið töluvert af kröfum um upphafshækkanir í kjarasamningum,“ segir hún.
Drífa telur að neytendur muni bregðast við ámóta aðgerðum hjá fyrirtækjum. „Þetta er mjög hættulegur leikur sem fyrirtæki eru að leika þarna, því fólki er augljóslega mjög misboðið. Það eru sterkar raddir uppi um að sniðganga fyrirtæki sem haga sér svona,“ segir hún.
„Mín tilfinning er annars sú að flest fyrirtæki ætli að axla ábyrgð eins og launafólk og mætast í þessum kjarasamningum,“ segir hún.