„Þetta er óvenjulega snemmt, það er óhætt að segja það. Yfirleitt er enn þá verið að ganga á snjó,“ segir Guðmundur Ögmundsson, þjóðgarðsvörður í Ásbyrgi, í samtali við mbl.is um snöggar leysingar í Jökulsárgljúfri nálægt Dettifossi.
„Það var stokkið úr vetrarhami í sumarhaminn á tíu dögum á stöðum sem við erum yfirleitt að sjá á sex vikum,“ segir þjóðgarðsvörðurinn.
Snjóléttur vetur varð til þess að snjóþekjan á svæðinu varð snöggt að asahláku og greiðfært varð á aðeins tíu dögum. Aðstæður breyttust hratt eins og sjá má á myndum af svæðinu.
„Við erum í því á veturna að sjá til þess að það sé greiðfært um svæðið þó að sé gengið á snjó, þá troðast leiðir. Nú er þetta bara orðið mjög þurrt og autt, frost er farið úr jörðu,“ útskýrir Guðmundur.