„Vatnar út umsamdar launahækkanir“

Fiskeldi Austfjarða í Berufirði breytti samningunum við starfsmenn sína í …
Fiskeldi Austfjarða í Berufirði breytti samningunum við starfsmenn sína í vikunni. Á morgun lýkur atkvæðagreiðslu um lífskjarasamninginn hjá SGS. mbl.is/Helgi Bjarnason

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, telur fréttirnar af breytingum á samningum starfsmanna hjá Fiskeldi Austfjarða ehf. setja nýumsamda lífskjarasamninga í uppnám. Atkvæðagreiðslu um þá lýkur á morgun.

Umræddir starfsmenn eru flestir hjá AFLi. Þeir eru á annan tug, þeir sem skrifuðu undir endurskoðaða samninga við Fiskeldi Austfjarða í vikunni sem leið.

„Þarna er fyrirtækið, að því er virðist, að reyna að komast undan því að borga þær launahækkanir sem er nýbúið að semja um. Að kalla þetta endurskoðun eða samráð, það er bara villandi. Það tekur enginn maður á sig með glöðu geði launalækkun,“ segir Sverrir.

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, segir uppfærslur á samningum starfsmanna …
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs, segir uppfærslur á samningum starfsmanna fiskeldisfyrirtækisins vekja upp efasemdir um vilja Samtaka atvinnulífsins og atvinnurekenda til að standa við kjarasamningana.

„Ég hef ekki séð nákvæmlega hvað felst í þessari endurskoðun en ég gef mér að verið sé að lækka áður umsamin kjör, því annars þyrfti náttúrulega ekki að endurskoða þetta. Það vatnar svo út launahækkunina sem menn áttu von á, þannig að menn geta bara sloppið við að greiða launahækkunina,“ segir Sverrir.

„Þetta vekur upp efasemdir um vilja Samtaka atvinnulífsins og atvinnurekenda til að standa við nýgerða kjarasamninga. Menn skrifa ekki undir kjarasamninga með þann möguleika opinn að ráðningakjör séu öll endurskoðuð í kjölfarið þannig að menn þurfi ekki að standa við nýgerðan kjarasamning,“ segir hann. „Þetta eru mikil vonbrigði.“

Sverrir segir að svona mál undirstriki þörf og nauðsyn þess að taxtakerfið endurspegli raunveruleg dagvinnulaun manna og kvenna. „Það verða alltaf til fyrirtæki sem reyna að komast hjá því að greiða sanngjarnar launahækkanir, og umsamdar, þannig að það þýðir ekkert að reyna að höfða til betri náttúru manna, það þarf bara að semja þannig að þeir geti ekki stundað þetta,“ segir hann.

Sverrir segir að hann hafi fyrst frétt af málinu í fréttum. „Starfsmenn hafa ekki komið til okkar enn þá, þannig að þetta hlýtur að hafa gerst bara á miðvikudaginn. Að við skulum frétta af þessu svona korter í að kosningu lýkur gerir okkur erfitt um vik að bregðast við. Það eru væntanlega flestir þegar búnir að kjósa sem ætluðu að kjósa,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert