Þeistareykjavirkjun framleiddi 671 GWh af raforku á árinu 2018 en virkjunin komst í fullan rekstur á því ári. Fyrri vélasamstæðan var tekin í notkun í nóvember 2017 og samkvæmt upplýsingum Orkustofnunar framleiddi virkjunin um 71 GWh á því ári.
Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu jókst raforkuvinnsla á landinu öllu um 591 GWh í fyrra eða um 3,1% frá fyrra ári að því er fram kom í greinargerð raforkuhóps orkuspárnefndar um raforkunotkunina á seinasta ári.
Aukningin er álíka mikil og öll raforkunotkun á Suðurlandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Í svari frá Rán Jónsdóttur, hjá raforkueftirliti Orkustofnunar, við fyrirspurn blaðsins um hvaðan þessi aukning stafaði aðallega á seinasta ári, segir að mestu muni um framleiðsluna frá Þeistareykjavirkjun en í Búrfellsvirkjun jókst framleiðsla um 127 Gwh milli þessara ára.