Hætta á árekstrum

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Kauphöllin, Nasdaq Iceland hf., leggst gegn því að eftirlit með hegðun á fjármálamarkaði verði fært undir Seðlabankann.

Þetta kemur fram í umsögn við frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands þar sem gert er ráð fyrir sameiningu Fjármálaeftirlitsins við Seðlabankann en að mati Kauphallarinnar er hætta á hagsmunaárekstrum ef þessi leið verður farin.

„Standi hins vegar vilji ríkisstjórnarinnar og Alþingis til þess að sameina Fjármálaeftirlitið Seðlabankanum að fullu álítur Kauphöllin engu að síður leiðir færar sem gætu dregið umtalsvert úr líkunum á hagsmunaárekstrum og aukið valddreifingu. Ef full sameining verður niðurstaðan telur Kauphöllin brýnt að skerpt verði á sjálfstæði þess varaseðlabankastjóra sem mun fara með málefni fjármálaeftirlits. Til að tryggja sjálfstæði hans telur Kauphöllin rétt að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits heyri beint undir bankaráð en falli ekki undir valdsvið seðlabankastjóra þegar kemur að málefnum fjármálaeftirlits,“ segir í umsögninni.

Varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits færi þá einungis með málefni þess eftirlits og leggur Kauphöllin til að hann yrði þá formaður fjármálaeftirlitsnefndar í stað seðlabankastjóra sem ekki hefði lengur sæti í nefndinni. omfr@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert