Katrín Jakobsdóttir er í 17. sæti lista bandaríska dagblaðsins USA Today yfir tuttugu launahæstu þjóðarleiðtoga heimsins.
Katrín er ofar á listanum en þeir Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, Jimmy Morales, forseti Gvatemala, og Édouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, sem rekur lestina í 20. sæti. Forsætisráðherrar Danmerkur og Svíþjóðar eru í 15. og 16. sæti fyrir ofan Katrínu.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að Katrín sé ein af fjórum konum á lista blaðsins, en hann náði yfir kjörna þjóðarleiðtoga eða þá sem sitja í forsæti ríkisstjórna. Launahæst kvenna er Carrie Lam, framkvæmdastjóri Hong Kong, en Lee Hsien Loong, forsætisráðherra Singapúr, ber höfuð og herðar yfir aðra á listanum.