„Þeir albjartsýnustu segja að við semjum í byrjun júní en ég er hræddur um að við gefum þessu tíma fram í júní. Það er mikið eftir,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður stéttarfélagsins Sameykis.
Iðnaðarmenn gera tilraun til samninga í vikunni og Bandalag háskólamanna sömuleiðis.
Mesti ákafinn virðist þó vera í iðnaðarmönnum enda stefndi formaður Rafiðnaðarsambandsins, sem er einnig talsmaður iðnaðarmanna í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, á að semja fyrir síðustu áramót. Ef iðnaðarmenn semja ekki fyrir vikulok munu þeir kjósa um aðgerðir, að sögn talsmanns þeirra, Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, að því er fram kemur í umfjöllun um samningamálin í Morgunblaðinu í dag.
Kosningu um kjarasamning Starfsgreinasambandsins annars vegar og Afls starfsgreinafélags hins vegar lýkur klukkan fjögur síðdegis í dag. Starfsgreinasambandið mun kynna niðurstöður atkvæðagreiðslunnar á morgun.
Kjörsókn hjá Afli er afar dræm, að því er fram kemur í frétt á vef starfsgreinafélagsins, og er ekki nema rúm 18% kjörsókn vegna kjarsamnings verslunarmanna og rúm 16% vegna kjarasamnings verkafólks.
Formaður Starfsgreinasambandsins vildi ekki gefa upp tölur um kjörsókn þegar eftir þeim var leitað.
Auknar launagreiðslur vegna lífskjarasamningsins sem ríkisstjórnin kynnti í byrjun mánaðar munu kosta sveitarfélögin 2% meira en ríkið, eða sem nemur fjórum milljörðum króna yfir samningstímabilið.
„Þetta er vegna samsetningar starfsmannahópsins okkar, við erum með fleira fólk í láglaunastörfum,“ segir sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.