Of snemmt er að tala um hvaða nýju áherslubreytingar stjórn Isavia muni boða á rekstri félagsins eftir brotthvarf Björns Óla Haukssonar úr starfi forstjóra í síðustu viku. Þá er augljóst að hin stóra þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar muni taka mið af breytingum á rekstrarumhverfi Isavia.
Þetta segir Orri Hauksson, stjórnarformaður Isavia, í samtali við mbl.is, en félagið hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur.
Í fréttatilkynningu Isavia frá 17. apríl kom fram að Björn Óli hefði sagt starfi sínu lausu sem forstjóri og myndi láta þegar af störfum. Heimildir Morgunblaðsins hermdu að Birni Óla hefði verið sagt upp samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins, en Orri segir að Björn Óli hafi sjálfur óskað eftir því að láta af störfum.
Mikið hefur verð fjallað um skuldasöfnun Isavia, en fjallað hefur verið um að skuld flugfélagsins WOW air við félagið hafi verið tæplega tveir milljarðar þegar WOW varð gjaldþrota þann 28. mars. Orri segir að brotthvarf Björns Óla tengist því ekki.
„Tilurð þess að hann lætur af störfum á þessum tímapunkti er ekki beintengt því. Það eru miklar breytingar í umhverfi þessa fyrirtækis og þess vegna féllumst við á það í stjórninni að þessi tímapunktur yrði fyrir valinu,“ segir Orri við mbl.is.
Orri kom fyrst inn í stjórn Isavia á aðalfundi þann 21. mars síðastliðinn og vill lítið segja um hvort hann telji þessa skuldasöfnun vera eðlilega hjá opinberu félagi eins og Isavia.
„Ég kom inn í stjórn og nokkrum dögum síðar var WOW hætt rekstri. Nú er svo verið að leita að nýjum forstjóra og margt í gangi, svo við munum á stjórnarfundi á morgun þurfa að setjast yfir mörg stórmál í umhverfi þessa fyrirtækis. Það er ekkert meira varðandi það sem ég ætla að tala um á þessum tímapunkti,“ segir Orri, og segir ekki vera í sínu hlutverki að tjá sig um hvað hefði verið hægt að gera öðruvísi hjá Isavia varðandi WOW.
Isavia er enn með vél WOW air kyrrsetta á Keflavíkurflugvelli sem er í eigu bandaríska fyrirtækisins ALC. Isavia segist í fullum rétti, en ALC krefst þess að fá þotuna. Verður deila þeirra tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Orri vill ekki tjá sig um ummæli Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair Group, sem sagði framgöngu Isavia í málinu geta skaðað orðspor Íslands sem flugrekstrarlands.
Orri kom inn í stjórn Isavia rétt áður en WOW féll og sagði að ný stjórn muni boða breyttar áherslur eftir að Björn Óli lét af störfum sem forstjóri.
„Það eru alltaf áherslubreytingar þegar koma nýjar manneskjur inn. Björn var búinn að vera lengi og taldi réttan tímapunkt til þess að söðla um. Nú hefst bara nýr kafli og það verða alltaf áherslubreytingar með því,“ segir Orri, en of snemmt sé að tala um áherslubreytingar sem fylgja breyttu umhverfi félagsins.
„Ný stjórn hefur ekki haft ráðrúm til þess að móta nýja stefnu eða slíkt, heldur hefur annað verið aðkallandi eins og brotthvarf forstjóra og gjaldþrot eins stærsta kúnnans. Það er of snemmt að tjá sig um hvernig þær verða, enda munu þær líka markast af þeirri manneskju sem kemur inn í þetta lykilsæti. Með nýju fólki kemur ný áferð.“
Árið 2015 kynnti Isavia svokallað „masterplan“ sem er þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar til ársins 2040. Þar var gert ráð fyrir 14 milljónum farþega um völlinn árið 2040, en fyrsti áfangi átti að kosta um 70 til 90 milljarða króna.
Miðað við þær breytingar sem hafa orðið í flugrekstri hér á landi síðustu vikur og mánuði, mun þessi risaáætlun Isavia verða tekin til endurskoðunar?
„Öll plön sem taka til fjárfestinga upp á tugi eða hundruð milljarða þurfa að byggjast á nýjustu og bestu upplýsingum um rekstrarumhverfi. Þau plön sem gerð hafa verið í fortíðinni verða ekki keyrð áfram á sjálfstýringu þegar umhverfið þróast eins og það hefur gert,“ segir Orri.
Hefur þá verið rætt um að endurskoða þessa áætlun?
„Það er ekki eins og nein smáatriði hafi verið greypt í stein, heldur er þetta lifandi áætlanagerð sem tekur mið af nýjustu upplýsingum,“ segir Orri Hauksson, stjórnarformaður Isavia, í samtali við mbl.is.