Talið að kviknað hafi í út frá raftæki

Um fimmtíu manns búa í 25 íbúðum í húsnæðinu.
Um fimmtíu manns búa í 25 íbúðum í húsnæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kviknaði eldurinn sem upp kom í húsnæði við Dalshraun í Hafnarfirði á laugardag út frá raftæki. Þetta staðfestir Skúli Jónsson, stöðvarstjóri á lögreglustöðinni í Flatahrauni, í samtali við mbl.is.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað að Dalshrauni síðdegis á laugardag vegna elds sem logaði þar í íbúð. Rýma þurfti húsnæðið og loka þurfti nærliggjandi götum fyrir umferð vegna umfangs aðgerða slökkviliðsins, sem tókst að ráða niðurlögum eldsins á sjötta tímanum. Húsnæðið var síðan vaktað til miðnættis áður en vettvangurinn var afhentur lögreglu.

Húsnæðið viðurkennt til búsetu

Um fimmtíu manns búa í 25 íbúðum í húsnæðinu og að sögn Skúla er um viðurkennt húsnæði til búsetu að ræða. Húsnæðið var yfirfarið fyrir nokkrum árum og segir Skúli engar athugasemdir hafa verið gerðar. 

Eldvarnir í húsinu séu taldar hafa verið í lagi en þær verði að sjálfsögðu skoðaðar í kjölfar eldsvoðans eins og gangi og gerist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert