Gagnrýnir Isavia og býst við skaðabótamáli

Oddur Ástráðsson, lögmaður bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC.
Oddur Ástráðsson, lögmaður bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Viðbrögð og viðmót Isavia og fulltrúa þess finnst okkur ekki bera vott um að þeir séu að vinna í góðri trú,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC, við mbl.is eftir að fyrirtaka í máli félagsins gegn Isavia fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

ALC krefst þess að Isavia láti af hendi farþegaþotu sem félagið kyrr­setti hinn 28. mars síðastliðinn til trygg­ing­ar nærri tveggja millj­arða skuld WOW air við Kefla­vík­ur­flug­völl.

Lögmenn ALC segja Isavia ekki hafa lagaheimild til að halda vélinni. Bent er á að WOW air hafi ekki haft vél­ina í sinni vörslu í kjöl­far þess að fé­lagið var úr­sk­urðað gjaldþrota. Þá hafi ALC ekki verið til­kynnt um kyrr­setn­ing­una fyrr en mörg­um klukku­stund­um eft­ir að WOW air bæði lagði inn flugrekstr­ar­leyfið og úr­sk­urður um gjaldþrot lá fyr­ir.

Isavia segist hins vegar vinna innan lagaramma og vera í fullum rétti til þess að kyrrsetja vélina. Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, ítrekaði það eftir fyrirtökuna að félagið hafni öllum ásökunum.

Í fyrirtöku málsins í dag fór Isavia fram á frest, og var gefinn slíkur fram á þriðjudag eftir viku þegar félagið á að leggja fram greinargerð í málinu. Málflutningur fer svo fram 2. maí og býst Oddur við að niðurstaða fáist fljótlega í kjölfarið.

„Á hverjum einasta degi sem líður verður minn umbjóðandi fyrir meira tjóni og því skiptir máli að fá úrlausn eins fljótt og hægt er. Við viljum reyna að reka þetta eins hratt og dómurinn treystir sér til,“ segir Oddur.

Tugmilljóna tekjutap á hverjum degi

Spurður nánar út í tjón ALC vegna kyrrsetningu vélarinnar segir Oddur að bæði tekjumissir og mögulegar skemmdir á vélinni vegi þungt.

„Meðaltekjur á svona nýlega þotu eru einhverjir tugir milljóna á dag. Svo er það líka þannig að farþegaþotur eru gerðar til þess að fljúga, og geta orðið fyrir tjóni ef þær eru ekki í rekstri. Hvað þá í saltrokinu á Suðurnesjum,“ segir Oddur.

Fulltrúar ALC fá þó aðgang að vélinni og reyna að halda henni í eins góðu ásigkomulagi og hægt er.

„Að öðrum kosti væri Isavia að baka sér enn meiri bótaskyldu. En ekki bara þarf hún að vera notkun til að afla tekna, heldur líka til þess að verða ekki fyrir tjóni. Það er eitthvað sem við höfum fullan hug á að kanna betur þegar þessum kafla er lokið. Það hefur verið forgangsatriði að losa vélina, en á meðan ekki leysist er ljóst að ALC verður fyrir tjóni sem við teljum Isavia eitt bera ábyrgð á.

Það má því búast við því að skaðabótamál verði höfðað á hendur Isavia í framhaldinu?

Já, augljóslega.

Vélin sem er í eigu ALC í vörslu Isavia á …
Vélin sem er í eigu ALC í vörslu Isavia á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson

Hafa mætt fálæti frá Isavia

Í dómsal í dag sakaði Oddur lögmenn Isavia um að reyna að teygja enn frekar á málinu með því að biðja um frest. Hann segir að samskiptin á milli félaganna hafi verið erfið.

„Við höfum mætt fálæti. Sem dæmi þá óskaði minn umbjóðandi eftir því að stjórnendur fengju fund með stjórnendum Isavia, til þess að athuga hvort væri grundvöllur til þess að leysa málið. Því var hafnað,“ segir Oddur og ekki sé meira upp úr samskiptum lögmanna að hafa.

„Við sem lögmenn félagsins erum bara í samskiptum við lögmenn gagnaðila, og þaðan hafa ekki komið neinar hugmyndir að einhverri lausn. Meðan svo er þá verðum við að leita lögmætra úrræða til þess að reyna að fá fram rétt okkar umbjóðanda,“ segir Oddur Ástráðsson, lögmaður bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC.

Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, í dómssal í dag.
Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia, í dómssal í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert