„Þú þarf ekki að vita neitt eða kunna bara að hafa óbeit á rusli og vilja koma því úr náttúrunni og á réttan stað,“ segir Einar Bárðarson skipuleggjandi stóra plokkdagsins sem fram fer næsta sunnudag 28. apríl.
Sjónum verður beint að Reykjanesbrautinni, Vesturlandsveginum og Suðurlandsvegi. „Það er mjög mikið rusl á þessu svæði. Náttúran tekur svo mikið að sér þarna í öllum dældum í hrauninu. Það er mikið um einangrunarplast og það ætti frekar að banna það en hunda,“ segir Einar og brosir.
Hann bendir á að þetta svæði sé það fyrsta þegar fólk kemur til landsins og hana aka mörg þúsund erlendra gesta og Íslendinga alla daga ársins. Þess vegna sé sjónum sérstaklega beint að því en plokkað verður alls staðar á landinu.
Plokkdagurinn tókst vel til í fyrra sem fram fór 22. apríl á degi jarðar. Til að mynda bárust 200 ruslapokar á sorpstöðina í Breiðholti sem var tínt beint úr náttúrunni. „Þá var ekkert stórkostlegt skipulag en það skilaði rosalega miklum árangri,“ segir Einar og bindur vonir við að fleiri taki þátt í ár. Samstarf við fleiri félagasamtök er í ár til að mynda við Ferðafélag Íslands sem meðal annars mannar stöður hópstjóra á nokkrum svæðum en óskað er eftir fleirum. Einnig ætla forsetinn og umhverfisráðherra að taka þátt.
Einar segir að allir öflugustu plokkarar landsins mæti og vonast til að fleiri plokkarar framtíðarinnar mæti einnig. Veðurspáin er góð fyrir daginn og fólk verður að klæða sig eftir veðri.
„Ætli ég sé ekki umboðsmaður plokkara á Íslandi. Ég er klappstýran þeirra. Þegar ég fylgdist með þeim fylltist ég aðdáunar á því. Það eru margir mikið öflugri en ég og fara miklu oftar að plokka en ég reyni að fara einu sinni í viku,“ segir Einar spurður út í plokkáhugann.
Á sama tíma og þessi svæði eru þrifin þá vilja plokkarar um leið minna vegfarendur sem skipta hundruðum ef ekki þúsundum á hverjum klukkutíma, á að allir geta plokkað og allir geta tekið þátt í að gera umhverfið og heiminn betri.
Þannig er hugmyndin að skipta borginni upp í svæði
„Plokk á Íslandi leitar að aðilum sem eru tilbúnir í hópstjórn og að því að koma að skipulagi og utanumhaldi. Öllum er velkomið að vera með og mæta í hluta eða í allan daginn. Þetta er skipulagði hluti dagsins en svo má fólk plokka auðvitað þar sem því sýnist og öll sveitarfélög. Vinnustaðir og hagsmunaaðilar gætu einnig nýtt daginn til vitundarvakningar.
Öll sveitarfélög, félagasamtök, flokkar, mafíur og útskriftarárgangar mega taka þátt, stofna viðburð, tengja Plokk á Íslandi og vera með. Því fleiri, því hreinna :-)“
Leiðbeiningar frá aðstandendum Plokks á Íslandi