Aðeins 8% hjúkrunarfræðinga sátt við launin

Á Barnaspítala Hringsins.
Á Barnaspítala Hringsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt könnun sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FíH) gerði í vetur meðal sinna félagsmanna eru aðeins 8% hjúkrunarfræðinga sátt við launin sín. Þátttaka í könnuninni var góð en um 2.100 hjúkrunarfræðingar svöruðu, eða rúm 75% félagsmanna.

Samkvæmt sömu könnun vilja hjúkrunarfræðingar helst leggja áherslu á hækkun dagvinnulauna í kjaraviðræðunum. Það var oftast sett sem fyrsta val, stytting vinnuvikunnar var oftast nefnd sem annað val og í þriðja sæti kom krafa um hækkun greiðslna vegna vaktaálags. Frá þessu er greint á vef FíH.

Miðlægir samningar hjúkrunarfræðinga losnuðu í lok mars sl. og hafa viðræður við ríki og borg farið hægt af stað, að sögn Gunnars Helgasonar, sviðsstjóra kjara- og réttindasviðs FíH. Tveir samningafundir eru að baki, auk vinnufundar, en næsti fundur með samninganefnd ríkisins er nk. mánudag.

Vilja fara nýjar leiðir

„Við höfum verið að klára okkar kröfugerð og væntum þess að heyra eitthvað frá ríkinu. Við viljum fara að sjá eitthvað gerast. Hvernig ætlar ríkið að reka heilbrigðiskerfið? Það er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum og miklar breytingar þurfa að verða á starfsumhverfi, launakjörum og vinnutíma ef á að fá menntaða hjúkrunarfræðinga til starfa í sínu fagi. Við viljum nálgast verkefnið með opnum huga og fara nýjar leiðir. Málið snýst ekki bara um hjúkrunarfræðinga heldur heilbrigðiskerfið í heild sinni,“ segir Gunnar.

Hann segir vandann m.a. birtast í því núna að illa gangi að ráða í sumarafleysingar, einnig á landsbyggðinni sem hafi þó gengið ágætlega til þessa. „Hjúkrunarfræðingar eru orðnir óþreyjufullir. Það er orðið langt síðan alvöru samtal hefur átt sér stað við okkar viðsemjendur. Síðustu viðræður árið 2015 enduðu með verkföllum og gerðardómi. Það er undirliggjandi ólga meðal félagsmanna, við viljum að starfsumhverfið batni þannig að hægt verði að fá fólk til starfa og einnig að halda fólki í starfi sem vinnur við fagið í dag,“ segir Gunnar enn fremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert