Um 6,5 íbúðir voru fullgerðar á hverja þúsund íbúa á Íslandi í fyrra. Til samanburðar hafa verið byggðar 6 íbúðir að meðaltali á hverja þúsund íbúa frá 1983. Hlutfallið í fyrra er því nærri meðaltali síðustu áratuga.
Þetta má lesa úr greiningu Magnúsar Árna Skúlasonar, framkvæmdastjóra Reykjavík Economics, fyrir Morgunblaðið, sem unnin var úr gögnum Hagstofu Íslands.
Greiningin leiðir í ljós að mun fleiri íbúðir voru fullgerðar á árunum fyrir efnahagshrunið. Fór fjöldinn á hverja þúsund íbúa hæst í 10,7 íbúðir árið 2006, sem var 78% yfir meðaltalinu frá árinu 1983.
Magnús Árni telur þessar tölur sýna fram á að of seint hafi verið brugðist við fyrirséðum skorti á íbúðum fyrr á þessum áratug. Skipulagsmál og aðgengi að fjármagni eigi þar hlut að máli. Nú sé hins vegar að skapast jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaði, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.