Skiptastjóri þrotabús United Silicon hefur á síðustu mánuðum tilkynnt nokkur ný mál sem tengjast þrotabúinu til embættis héraðssaksóknara. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir þetta í samtali við mbl.is, en RÚV greindi fyrst frá.
Á vef RÚV er haft eftir Geir Gestssyni, skiptastjóra bús United Silicon, að eftir því sem vinnu skiptastjóra hafi miðað áfram hafi „eitt og annað“ verið sent til héraðssaksóknara til nánari skoðunar.
Geir sagði við mbl.is í ágúst í fyrra að þrotabúið væri að skoða alvarlega að fara í frekari mál gegn Magnúsi Garðarssyni, stofnanda og fyrrverandi forstjóra félagsins.
Þá hafði þrotabúið þegar höfðað tvö mál gegn Magnúsi vegna meintra fjársvika og nemur heildarupphæðin sem þar er undir alls yfir 4,7 milljónum evra, eða hartnær 650 milljónum íslenskra króna.
Ólafur Þór segir við blaðamann að tilkynningar um fleiri mál hafi borist frá skiptastjóra þrotabúsins í skömmtum og að rannsókn þeirra mála hafi verið sameinuð við þá rannsókn sem var þegar í gangi hjá embættinu.
Kröfur í búið námu alls um 23,5 milljörðum króna og Arion banki var stærsti kröfuhafinn af alls 156 slíkum. Krafa Arion hljóðaði upp á 9,5 milljarða króna og var forgangskrafa.
Samkvæmt því sem skiptastjóri segir við RÚV er líklegt að ekkert fáist upp í almennar kröfur í þrotabúið, né launakröfur.