Kornbændur eru að plægja akra og undirbúa sáningu. Sumir eru byrjaðir að sá, aðrir bíða eftir að það stytti upp og búast má við að mjög margir sái fyrir korni í þessari viku og í byrjun næstu.
„Ég er að sá úr síðustu vélinni. Þetta hefur gengið ágætlega,“ segir Magnús Már Haraldsson, bóndi í Belgsholti í Melasveit í Borgarfirði. Hann byrjaði að sá um páskana. Magnús segir að jörð sé klakalaus og sæmilega hlýtt í veðri. „Vonandi heldur það sér.“
Sáningstíminn í ár er svipaður og mörg undanfarin ár fyrir utan síðasta ár. Þá gátu bændur ekki sáð fyrr en komið var fram um miðjan maí, vegna bleytu og klaka, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.