Viðræður standa yfir milli Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna um að bílastæði á Miðbakka við Gömlu höfnina verði nýtt í framtíðinni sem almannarými, a.m.k. að sumarlagi.
Fulltrúar frá höfn og borg eru að móta tillögur og munu skila af sér innan tíðar, að sögn Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna. „Þetta gæti orðið að veruleika strax í sumar,“ segir Gísli í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag.
Reykjavík Street Food sendi Faxaflóahöfnum erindi fyrr í vetur um að fá afnot af Miðbakkasvæði vegna götubitahátíðar sem til stendur að halda í júlí í sumar. Var skipulagsfulltrúa hafnarinnar falið að ræða við bréfritara.
Reykjavík Street Food hyggst halda svokallaðan götubitamarkað á Miðbakkasvæðinu yfir eina helgi, frá föstudegi til sunnudags. Áform eru um að yfir 30 söluaðilar selji þar gestum og gangandi götubita í gámum, matarvögnum og sölutjöldum en auk þess verði settar upp búðir með götufatnaði og sérverslanir. Þá stendur einnig til að hafa bar, kaffibari, ísbúð og bakarí á staðnum en viðburðurinn á að auki að hýsa keppnina Besti götubiti Íslands.