Hefja lagningu jarðstrengs á Kili

Nýr jarðstrengur mun liggja meðfram Kjalvegi og að Hveravöllum.
Nýr jarðstrengur mun liggja meðfram Kjalvegi og að Hveravöllum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ákvörðun um lagningu rafstrengs í jörð meðfram sunnanverðum Kjalvegi var tilkynnt á fréttamannafundi hjá RARIK nú eftir hádegið. Hann mun liggja meðfram veginum um Kjöl og ná upp að Hveravöllum.

Um er að ræða 24 kV rafstreng í jörð frá Bláfellshálsi norðan við Gullfoss í Árbúðir, Gíslaskála, Kerlingarfjöll og að Hveravöllum. Verkefnið hefur verið nefnt „Orkuskipti á Kili“ og verður stór áfangi í loftslags- og öryggismálum á hálendinu. Strengurinn liggur um 58 kílómetra leið að Hveravöllum, að mestu meðfram Kjalvegi, og um 9 km frá Kjalvegi að Kerlingarfjöllum, samtals 67 km.

Áætlað er að plægja ljósleiðara niður samhliða. Stefnt er að því að hefja lagningu strengsins um mánaðamótin júlí/ágúst í sumar og að verkinu ljúki í haust.

Fyrirhuguð lagnaleið jarðstrengs með Kjalvegi.
Fyrirhuguð lagnaleið jarðstrengs með Kjalvegi. Ljósmynd/Rarik

Veiturafmagn í stað olíubrennslu

Stjórnvöld munu leggja verkefninu til 100 milljónir króna á næstu tveimur árum. Strenglagningin kostar um 270 milljónir króna og til viðbótar kemur um 25 milljóna króna kostnaður vegna spennistöðva og tengibúnaðar við Brúarhvamm austan Geysis. Framkvæmdin er fjármögnuð með tengigjöldum þeirra viðskiptavina, sem nú tengjast, og tekjum af áætlaðri framtíðarnotkun og tengigjöldum, ásamt fyrirheitum um framlög úr ríkissjóði og frá sveitarfélögunum Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi og Húnavatnshreppi.

„Lagning rafdreifikerfis um langar leiðir inn á öræfi er kostnaðarsamt verkefni, auk þess sem flutningsgeta er takmörkuð. Því þarf alltaf að nýta vel alla þá orku sem menn fá aðgang að á hálendinu. Með lagningu jarðstrengs upp á Kjöl fá ferðaþjónustuaðilar, Neyðarlínan og fjarskiptafyrirtæki aðgang að veiturafmagni sem ætti að anna þörf þeirra til næstu framtíðar. Einnig opnast möguleikar á uppsetningu hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla. Þessir aðilar geta þar með valið sér orkusölufyrirtæki til að kaupa raforku af, í stað þess að brenna olíu til raforkuframleiðslu,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fagnar þessum áfanga í loftslagsmálum og greindi frá stuðningi stjórnvalda við verkefnið á fundinum.

„Tími aðgerða í loftslagsmálum er runninn upp. Stjórnvöld sem og samfélagið allt þarf að taka mið af þeirri staðreynd þegar ákvarðanir eru teknar sem hafa áhrif á losun. Þannig tryggjum við að Ísland nái markmiðum Parísarsamningsins til 2030. Orkuskipti á Kili hafa sannarlega áhrif og þess vegna er ánægjulegt að þessum áfanga er náð.“

Jarðstrengurinn mun auka öryggi með stöðugra sambandi við viðbragðsaðila.
Jarðstrengurinn mun auka öryggi með stöðugra sambandi við viðbragðsaðila. mbl.is/Eggert

90% olíusparnaður hjá Neyðarlínunni

Neyðarlínan hafði forgöngu að samstarfi við RARIK, Bláskógabyggð og tvö ferðaþjónustufyrirtæki, sem eru með rekstur á Geldingafelli, um lagningu rafstrengs frá Brúarhvammi á Bláfellsháls árið 2017. Rafmagnið knýr meðal annars sendistöð Neyðarlínunnar á Bláfelli. Þórhallur Ólafsson framkvæmdastjóri segir að framlenging strengsins upp á Kjöl hafi mikla þýðingu.

„Neyðarlínan tekur þátt í þessu verkefni meðal annars til þess að stuðla að orkuskiptum með notkun innlendra vistvænna orkugjafa í stað brennslu jarðefnaeldsneytis. Náðst hefur að draga meir en 90% úr brennslu olíu á fjarskiptastöðvum undanfarin ár, eða sem nemur um 130 þúsund lítrum á ári.

Í öðru lagi er tilgangurinn að auka öryggi í rekstri fjarskipta með tengingu við dreifiveitu rafmagns í stað díselrafstöðva. Með því er dregið úr útföllum og möguleikar auknir á því að ná ávallt í 112. Þar með eru viðbragðsaðilar alltaf í sambandi. Í þriðja lagi er um það að ræða að auka öryggi fjarskipta með lagningu ljósleiðara samhliða rafstrengnum. Þá verður hægt að leggja af rekstur á örbylgjum en hann er erfiður á háfjöllum og truflanir tíðar. Auk þess mun fjarskiptaöryggi aukast verulega með tengingu milli Suður- og Norðurlands.“

Strengurinn byltir rekstri skála

Ferðamannastaðirnir Árbúðir, Gíslaskáli, Hveravellir og Kerlingarfjöll munu strax njóta góðs af rafstrengnum. Frá honum má síðar tengja skálasvæðin Hvítárnes, Þverbrekknamúla, Fosslæk, Leppistungur og Svínárnes með lagningu viðbótarstrengja, kjósi eigendur að farið verði í þær framkvæmdir og leggi í þann kostnað sem því fylgir. 

„Skála og önnur mannvirki við Kjalveg er þá hægt að kynda árið um kring og enginn þarf lengur að koma að þeim köldum og saggafullum utan mesta hlýindatímans. Þetta skapar alveg nýja möguleika og tækifæri fyrir fólk til að njóta útivistar á hálendinu,“ segir Vilborg Guðmundsdóttir frá Myrkholti, sem ásamt Lofti Jónssyni, manni sínum, rekur þrjá skála við Kjalveg undir merkjum Gljásteins ehf.

Ferðamannastaðir í Kerlingarfjöllum eru sagðir strax nóta góðs af jarðstrengnum.
Ferðamannastaðir í Kerlingarfjöllum eru sagðir strax nóta góðs af jarðstrengnum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Mikilvægt umhverfisverkefni

Sveitarstjórnir Bláskógabyggðar, Hrunamannahrepps og Húnavatnshrepps, hafa allar nýverið samþykkt að taka þátt í lagningu jarðstrengsins með stofnframlögum. Komið hefur fram í umræðum innan þeirra að um sé að ræða mikilvægt umhverfisverkefni sem skapi stóraukna möguleika til orkuskipta, útvistar á hálendinu og hitunar fjallaskála allan ársins hring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert