Krefst upplýsinga um greiðslur til Báru

Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð …
Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð frá vinstri: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, auk Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, fyrrverandi þingmanna Flokks fólksins. Samsett mynd

Lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins hefur lagt fram kröfu til Persónuverndar um aukna gagnaöflun í málinu. Þess er krafist að upplýsingar verði veittar um greiðslur inn á reikning Báru Halldórsdóttur á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is en fyrst var greint frá málinu á vef RÚV.

Helga segir að krafan verði afgreidd á stjórnarfundi Persónuverndar um miðjan dag á mánudag. Gert er ráð fyrir því að afgreiðslan verði birt morguninn eftir.

Klaustursmálið hefur verið til umfjöllunar Persónuverndar síðan um miðjan desember. Helga segir að málið hafi tafist þegar þingmenn Miðflokksins fóru með það fyrir héraðsdóm og síðar Landsrétt, þar sem kröfum þeirra var hafnað.

Auk þess að krefjast þess að fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru, eins og áður var greint frá, krefst lögmaður þingmannanna þess að fá frekara efni úr öryggismyndavélum Klausturs og Kvosarinnar Downtown Hostel frá því kvöldið 20. nóvember.

Bára Halldórsdóttir.
Bára Halldórsdóttir. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert