„Einn draugur fer þó um þinghúsið og ygglir sig í þingsalnum og er mikil nauðsyn að kveðinn verði niður, rotaður í einu höggi, en það er málþóf,“ sagði Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í ræðu á Hátíð Jóns Sigurðssonar sem haldin var í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í gær.
Á hátíðinni afhenti Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, Vibeke Nørgaard Nielsen, rithöfundi og fyrrverandi kennara, verðlaun Jóns Sigurðssonar. Kemur fram í fréttatilkynningu frá Alþingi að framlag hennar við kynningu á Íslandi og íslenskri menningu í Danmörku sé ómetanlegt. Hún hefur haldið sýningar, kynningar og fyrirlestra um landið um langt árabil og skipulagt fjölmargar Íslandsferðir fyrir Dani.
Helgi lætur af störfum í ágúst, eftir rúmlega fjörutíu ára starf á skrifstofu Alþingis. Hann rifjaði upp gagnrýni á þingið og þingmenn sem ávallt hefði verið höfð uppi og hélt uppi vörnum. „Mig hefur oft undrað hvað dómar um þingmenn rista grunnt, bæði um manngildi þeirra og störf. Allir hafa nokkuð til síns ágætis, sumir mikið en aðrir auðvitað minna. Slíkur er þverskurður samfélagsins. Harðir dómar mega ekki verða til þess að varpa skugga á sjálft lýðræðið og þingræðið. Þá kemur eitthvað allt annað og miklu verra í staðinn,“ sagði Helgi.