„Það má eiginlega segja að allir dagar séu einhvers konar plokkdagar hjá mér,“ segir Tómas Knútsson, stofnandi umhverfissamtakanna Bláa hersins, sem mun fara fyrir plokkurum í Reykjanesbæ á Stóra plokkdeginum á sunnudag.
Hópurinn Plokk á Íslandi stóð fyrir samskonar degi á Degi jarðar í fyrra en í ár var ákveðið að halda hann sunnudaginn 28. apríl þar sem Dagur jarðar lenti á páskum þetta árið. Að þessu sinni verður athyglinni beint að Reykjanesbraut, Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi.
„Þetta er samvinnuverkefni og leggst ágætlega í mig. Ég er vanur og aðalatriðið er að mynda stemningu og hafa gaman. Það vilja allir hafa hreint í kring um sig,“ segir Tómas í samtali við mbl.is. „Þessi vakning sem er í gangi er yndisleg og það er gaman að sjá hvað fólk er farið að velta þessum hlutum mikið meira fyrir sér en áður.“
Tómas segir að veður og mæting í plokk haldist gjarnan í hendur, en hann vonast eftir góðu veðri alla helgina, enda stendur Blái herinn að hreinsunardegi í umhverfi Keflavíkurflugvallar í samvinnu við Isavia á laugardag.
Stóri plokkdagurinn er haldinn víðar en í Reykjanesbæ, en eins og áður segir er áhersla lögð á stofnbrautir til og frá höfuðborgarsvæðinu og fara hópar af stað í plokk frá Vogunum, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og þremur stöðum í Reykjavík, en hægt er að lesa sér nánar til um Stóra plokkdaginn á Facebook.