Ingveldur Geirsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, er látin. Hún lést í gær eftir baráttu við krabbamein, 41 árs að aldri. Hún greindist fyrst með brjóstakrabbamein árið 2014 og hafði talað opinskátt um baráttu sína við sjúkdóminn, sem hún tókst á við af æðruleysi.
Ingveldur hóf störf á Morgunblaðinu árið 2005 og starfaði á blaðinu til æviloka, en réði sig þó yfir á Stöð 2 til skamms tíma árið 2012 og starfaði þar sem fréttamaður þar til hún flutti sig aftur yfir á Morgunblaðið 2013.
Hún gegndi einnig trúnaðarstörfum fyrir Blaðamannafélag Íslands og var í varastjórn félagsins frá 2014-2015 og síðan í aðalstjórn frá 2015-2019.
Í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins í febrúar árið 2015 sagði Ingveldur, þá ólétt að öðru barni sínu, að viðhorfið skipti miklu í veikindum eins og þeim sem hún glímdi við.
„Oft er talað um að fólk sé að berjast við krabbamein en ég lít ekki á þetta sem styrjöld. Bara verkefni, eins og svo margt annað sem við stöndum frammi fyrir í lífinu. Veikindi eru partur af lífinu. Mörgum sem greinast með krabbamein finnst lífið eflaust vera á móti sér og spyrja: Af hverju ég? Það hef ég aldrei gert. Ég spyr frekar: Af hverju ekki ég? Þetta fer á einhvern veg. Það er alveg ljóst. Fari þetta með mann í gröfina verður bara svo að vera,“ sagði Ingveldur.
Hún sagðist ekki hrædd við dauðann og sýndi mikið æðruleysi gagnvart því verkefni sem hún stóð frammi fyrir.
„Ég hef alltaf verið æðrulaus manneskja. Mitt lífsviðhorf mótaðist líklega af því að alast upp í sveit. Sem lítil stelpa horfði ég á lífið verða til, sá tuddana fara upp á kýrnar og hrútana upp á ærnar. Ég kynntist líka dauðanum, tók á móti dauðum lömbum og kálfum og sá oft um að grafa dauð dýr, stundum með mikilli viðhöfn. Við systkinin smíðuðum krossa á grafirnar, lögðum blómvendi á þær og sungum sálma. Maður hefur afskaplega lítið um þessa hluti að segja, þetta er gangur lífsins,“ sagði Ingveldur Geirsdóttir.
Ingveldur lætur eftir sig eiginmann, tvö börn og þrjú stjúpbörn.
Samstarfsfólk Ingveldar á Morgunblaðinu og mbl.is sendir fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Hennar verður sárt saknað.