Andlát: Ingveldur Geirsdóttir blaðamaður

Ingveldur Geirsdóttir blaðamaður lést í gær, 41 árs að aldri.
Ingveldur Geirsdóttir blaðamaður lést í gær, 41 árs að aldri. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Ingveldur Geirsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, er látin. Hún lést í gær eftir baráttu við krabbamein, 41 árs að aldri. Hún greindist fyrst með brjóstakrabbamein árið 2014 og hafði talað opinskátt um baráttu sína við sjúkdóminn, sem hún tókst á við af æðruleysi.

Ingveldur hóf störf á Morgunblaðinu árið 2005 og starfaði á blaðinu til æviloka, en réði sig þó yfir á Stöð 2 til skamms tíma árið 2012 og starfaði þar sem fréttamaður þar til hún flutti sig aftur yfir á Morgunblaðið 2013.

Hún gegndi einnig trúnaðarstörfum fyrir Blaðamannafélag Íslands og var í varastjórn félagsins frá 2014-2015 og síðan í aðalstjórn frá 2015-2019.

Ingveldur Geirsdóttir í febrúar árið 2015.
Ingveldur Geirsdóttir í febrúar árið 2015. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mætti verkefninu af æðruleysi

Í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins í febrúar árið 2015 sagði Ingveldur, þá ólétt að öðru barni sínu, að viðhorfið skipti miklu í veikindum eins og þeim sem hún glímdi við.

„Oft er talað um að fólk sé að berj­ast við krabba­mein en ég lít ekki á þetta sem styrj­öld. Bara verk­efni, eins og svo margt annað sem við stönd­um frammi fyr­ir í líf­inu. Veik­indi eru part­ur af líf­inu. Mörg­um sem grein­ast með krabba­mein finnst lífið ef­laust vera á móti sér og spyrja: Af hverju ég? Það hef ég aldrei gert. Ég spyr frek­ar: Af hverju ekki ég? Þetta fer á ein­hvern veg. Það er al­veg ljóst. Fari þetta með mann í gröf­ina verður bara svo að vera,“ sagði Ingveldur.

Ing­veld­ur hlaut hvatn­ing­ar­verðlaun Brjósta­heilla árið 2015, fyr­ir að af­hjúpa lík­ama …
Ing­veld­ur hlaut hvatn­ing­ar­verðlaun Brjósta­heilla árið 2015, fyr­ir að af­hjúpa lík­ama sinn, eftir að hún undirgekkst brjóstnám, á forsíðu Sunnudagsblaðs Morg­un­blaðsins. Hér veitir hún verðlaununum viðtöku. mbl.is/Eggert

Hún sagðist ekki hrædd við dauðann og sýndi mikið æðruleysi gagnvart því verkefni sem hún stóð frammi fyrir.

Ingveldur á forsíðu Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins í febrúar 2015.
Ingveldur á forsíðu Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins í febrúar 2015.

„Ég hef alltaf verið æðru­laus mann­eskja. Mitt lífsviðhorf mótaðist lík­lega af því að al­ast upp í sveit. Sem lít­il stelpa horfði ég á lífið verða til, sá tudd­ana fara upp á kýrn­ar og hrút­ana upp á ærn­ar. Ég kynnt­ist líka dauðanum, tók á móti dauðum lömb­um og kálf­um og sá oft um að grafa dauð dýr, stund­um með mik­illi viðhöfn. Við systkin­in smíðuðum krossa á graf­irn­ar, lögðum blóm­vendi á þær og sung­um sálma. Maður hef­ur af­skap­lega lítið um þessa hluti að segja, þetta er gang­ur lífs­ins,“ sagði Ingveldur Geirsdóttir.

Ingveldur lætur eftir sig eiginmann, tvö börn og þrjú stjúpbörn.

Samstarfsfólk Ingveldar á Morgunblaðinu og mbl.is sendir fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Hennar verður sárt saknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert