Fertugur karlmaður, sem skotinn var til bana í heimahúsi í þorpinu Mehamn í Finnmörku í Noregi síðastliðna nótt, var Íslendingur samkvæmt heimildum mbl.is. Tveir karlmenn hafa verið handteknir vegna málsins en annar þeirra er grunaður um að hafa orðið hinum látna að bana.
Heimildir mbl.is herma að hinn grunaði sé einnig Íslendingur og að hann hafi beðist fyrirgefningar í færslu á Facebook-síðu sinni í morgun, áður en hann var handtekinn.
Minningarathöfn stendur nú yfir í kirkju í Mehamn.
Fram kemur í norskum fjölmiðlum að lögreglan í Finnmörku hafi staðfest að fjölskyldutengsl hafi verið á milli mannanna en ekki gefið upp að svo stöddu hver þau eru. Sá sem grunaður er um verknaðinn er 35 ára gamall og hinn sem handtekinn var er 32 ára. Mennirnir tveir voru handteknir í húsi í þorpinu Gamvik í kjölfar ábendingar.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá lögreglunni að hinir handteknu verði yfirheyrðir síðdegis í dag og í kvöld. Lögreglan hyggst óska eftir gæsluvarðhaldi yfir þeim á mánudaginn. Sérfræðingar lögreglunnar eru að rannsaka málið. Hugsanlegt er að leitað verði eftir aðstoð rannsóknarlögreglunnar Kripos við rannsókn málsins.
Staðfest er í tilkynningunni að hinn látni og sá sem grunaður er um að hafa orðið honum að bana séu erlendir ríkisborgarar. Lögreglan vinni að því að hafa samband við ættingja þeirra. Rannsókn málsins sé á frumstigi og unnið sé að því að afla gagna um aðdraganda þess að sá sem fyrir árásinni varð var skotinn.
Lögreglan hefur hafið skýrslutökur af fóki sem kann að geta varpað ljósi á atburðarásina. Talsverð vinna er eftir að sögn hennar þar til hægt verður að draga upp mynd af því sem gerðist. Einnig hefur verið óskað eftir upplýsingum frá erlendum lögregluyfirvöldum. Gert er ráð fyrir að rannsóknin standi yfir fram á kvöld og á morgun.
Lík hins látna verður sent til krufningar í Tromsø. Hinum handteknu verða skipaðir verjendur að sögn lögreglunnar.