Baldur Arnarson
Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, eins stærsta verktakafyrirtækis landsins, segir byggingarkostnað hafa hækkað mikið að undanförnu vegna launaskriðs og gengislækkunar. Sú þróun muni, ásamt sölutregðu á ýmsum markaðssvæðum, birtast í minna framboði.
„Ég held að það sé komið ákveðið offramboð inn á markaðinn af íbúðum á miðbæjarsvæðinu,“ segir hann í Morgunblaðinu í dag og bendir á að íbúðirnar séu ólíkar. Félagið Blómaþing byggði 66 íbúðir á Frakkastígsreitnum.
Þorsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Blómaþings, segir óvissu vegna kjarasamninga og WOW air hafa haft áhrif á íbúðamarkaðinn. Nú séu þessir þættir að baki en búið að framlengja óvissuna með loforðum um aðgerðir í húsnæðis-, lána- og skattamálum vegna kjarasamninga. Brýnt sé að eyða þeirri óvissu.
„Ég tel að íbúðamarkaðurinn í miðborginni sé ekki yfirkeyrður. Það er náttúrlega offramboð í augnablikinu og salan mun taka eitthvað lengri tíma en áætlað var.“