Um 40-50 Íslendingar þjást af alvarlegum meðfæddum ónæmisgöllum og mótefnaskorti. Fræðslufélagið Lind stendur fyrir fræðslufundi um sjúkdóminn á mánudaginn í tilefni af alþjóðlegum vitundarvakningardegi hans.
Verður fundurinn haldinn á Barnaspítala Hringsins og er opinn öllum þeim sem áhuga hafa á málefninu. Ágúst Haraldsson, yfirlæknir á barnaspítalanum, er einn þeirra sem flytja erindi á fundinum. Ágúst segir ónæmisgalla býsna mismunandi en þeir geti verið lífshættulegir. Hann segir þó miklar framfarir hafa orðið á síðustu árum við greiningu og meðferð við sjúkdómnum.
Ágúst segir tiltölulega stutt síðan farið var að skima fyrir ónæmisgöllum hjá öllum nýfæddum börnum. Er skimunin framkvæmd með því að taka blóð úr hæl ungbarna sem notað er til að leita eftir alvarlegum sjúkdómum, m.a. lífshættulegum ónæmisgöllum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.