Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um farbann yfir konu sem var með sjö þúsund töflur af Oxycontin í fóðri ferðatösku sinnar þegar hún kom hingað til lands frá Alicante á Spáni 19. apríl.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem vitnað er í í úrskurði héraðsdóms, segir að konan hafi sagt annan aðila eiga töskuna og að hún hafi vitað um „einhvern varning“ í töskunni en ekki hve mikið það væri.
Rannsókn málsins stendur yfir og er unnið að því að rannsaka aðdraganda ferðar kærðu utan og hingað til lands, auk þess sem hugsanleg tengsl við vitorðsmenn á Íslandi og erlendis eru til rannsóknar. Um sé að ræða „verulegt magn hættulegra lyfja“ sem gangi kaupum og sölum með ólögmætum hætti hér á landi.
Ætlað götuverðmæti taflanna er vel yfir 50 milljónir króna.
Konunni er gert að sæta farbanni þar til dómur gengur í máli hennar, þó eigi lengur en til 22. maí.