Ráðherra dragi „tilgangslaust“ frumvarp til baka

Sólheimajökull. Jöklar heimsins eru að meðaltali flestir að hopa vegna …
Sólheimajökull. Jöklar heimsins eru að meðaltali flestir að hopa vegna hlýnunar loftslags. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náttúruverndarsamtök Íslands segja fátt benda til þess að frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á lögum um loftslagsmál muni styrkja umgjörð og stjórnsýslu loftslagsmála hér á landi, líkt og sé yfirlýst markmið frumvarpsins. Leggja samtökin til að ráðherra dragi frumvarpið til baka enda sé það tilgangslaust. Að mati samtakanna þarf að vinna það mun betur.

Samtökin segja að í frumvarpinu sé ekki tekið á þeim vanda að Ísland, sem og mörg önnur ríki, verður að draga umtalsvert meira úr losun en aðildarríki loftslagssamningsins kynntu í aðdraganda Parísarráðstefnunnar 2015. Hlutur Evrópusambandsins og aðildarríkja þess yrði a.m.k. 55% samdráttur í losun fyrir árið 2030 miðað við 1990. Framlag Íslands til sameiginlegra aðgerða Evrópusambandsins yrði þá nær 40% en ekki 29% eins og samist hefur um milli Íslands og ESB.

„Ákvæði frumvarpsins um loftslagsráð eru öðru fremur fallin til að ráðið veiti ákvörðunum ráðherra lögmæti með fallegum umsögnum en ekki til að veita stjórnvöldum aðhald líkt og upphaflega var yfirlýst markmið með stofnun loftslagsráðs,“ segir í fréttatilkynningu Náttúruverndarsamtakanna sem skilað hafa inn umsögn um frumvarpið. „Í nágrannalöndum Íslands hafa verið stofnuð loftslagsráð og er staða þeirra, styrkur og sjálfstæði meira en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þó er engin spurning um að stjórnvöld skortir öflugt aðhald.“

Samtökin segja að umrætt frumvarp „virðist ekki gegna neinum sérstökum tilgangi, þótt breytingar vegna hlýnunar og súrnunar sjávar gerast æ hraðar“.

Í yfirlýsingu samtakanna er bent á að í gær hafi Nicola Sturgeon, ráðherra skosku ríkisstjórnarinnar, lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins mun síðar í vikunni leggja til við breska þingið að það lýsi yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga. „Nú ber svo við að forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, hittir Nicola Sturgeon, Theresu May og aðra ráðamenn í Bretlandi nú í vikunni,“ segir í yfirlýsingunni. „Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Katrínu að styðja tillögurnar um yfirlýst  neyðarástand vegna mjög hraðrar hlýnunar á norðurslóðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert