Áforma að loka götum við nýtt Hlemmtorg

Teikning/Dagný Land Design
Teikning/Dagný Land Design

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa til skoðunar að loka fyrir umferð bifreiða umhverfis Hlemm. Það er hluti af uppbyggingu Hlemmtorgs. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, segir áformað að hefja framkvæmdir á næsta ári.

Til skoðunar sé að loka fyrir umferð einkabíla á Laugavegi milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar, sunnan við Hlemm. Þá sé til skoðunar að loka fyrir bílaumferð að Hlemmi úr austurátt, á kaflanum frá Fíladelfíu að Hlemmi. Horft sé til þess að flytja Lögreglustöðina frá Hlemmi.

„Við erum að sjálfsögðu að hugsa til þess að Laugavegurinn verði í framtíðinni göngugata og Hlemmur líka,“ segir Sigurborg Ósk. Samhliða verði gatnamótum Laugavegar og Snorrabrautar breytt í þágu gangandi fólks. Hún segir Hlemm munu verða eitt helsta verslunartorg borgarinnar. Þar verði rými fyrir matarvagna, sölubása og gamla timburhúsið Norðurpólinn.

Ætlunin sé að Hlemmur verði ekki lengur tímajöfnunarstöð fyrir Strætó og að ný samgöngumiðstöð á BSÍ-reit taki við því hlutverki.

Breytt stefna á Hverfisgötu

Sigurborg Ósk segir aðspurð það vera til skoðunar að breyta stefnu umferðar á Hverfisgötu. „Þar verður tvístefna en spurningin er hvort hún verði aðeins fyrir almenningssamgöngur eða bæði almenningssamgöngur og einkabíla. Það er ekki komið á hreint,“ segir Sigurborg Ósk í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert