Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, mun snúa til baka úr leyfi frá störfum á Alþingi á morgun. Ágúst fór fyrst í tveggja mánaða leyfi í lok síðasta árs eftir að hann fékk áminningar frá trúnaðarnefnd flokksins vegna framkomu sinnar í garð konu í byrjun síðasta sumars. Hann áreitti hana kynferðislega og þegar hún hafnaði honum ítrekað fór hann særandi orðum um hana.
Í febrúar tilkynnti Ágúst að hann færi í framhaldinu í veikindaleyfi. Í færslu á Facebook-síðu sinni segir Ágúst að hann hafi undanfarna mánuði þurft að endurskoða líf sitt og sækja sér faglega aðstoð vegna áfengisvanda sem hafi verið meiri en hann áttaði sig á. „Ég hef þurft að horfast í augu við líf mitt, viðurkenna vanmátt minn gagnvart áfengi og vera tilbúinn að þiggja aðstoð annarra,“ segir Ágúst.
Segist hann ekki taka því sem sjálfgefnu að taka sæti á þingi á ný, en að hann brenni fyrir að starfa í þágu samfélagsins. „Í raun er ég biðja um annað tækifæri,“ segir hann.