„Við ætlum að senda fólk þarna eftir morgundaginn, að þrífa þetta upp. Þetta er náttúrulega engum til sóma,“ sagði Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu um haug af rusli sem hann segir að sé utan lóðar Sorpu.
Björn segir það miður að einstaklingar sturti sorpi á víðavangi, í ljósi umræðu um lítinn ruslahaug sem blasti við vegfarendum á lóð skammt frá móttökustöðvum Sorpu á Gufunesvegi og Morgunblaðið fjallaði um í morgun.
„Sá sem ber ábyrgð á þessu er sá sem hafði fyrir því að sturta þessu. Ég skil ekki alveg hvað fólki gengur til en ef þú ert einstaklingur þá kostar ekki neitt að henda þessu á endurvinnslustöðina,“ sagði Björn.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, stöðvarstjóri móttökustöðvar Sorpu á Gufunesvegi segir að jarðvegurinn á svæðinu sé vætusamur og því sé erfitt að koma að því á bíl en það verði hreinsað um leið og aðstæður leyfa.
Stígurinn að litla haugnum er gamall hjólastígur sem er ókláraður en hefur hlið að svæðinu, sem almennt er lokað, verið opið í allan vetur. Jón segir að óskandi væri að borgaryfirvöld lokuðu hliðinu á ný.