„Við teljum að fullnægjandi heimild sé fyrir þessu,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, inntur eftir viðbrögðum við ummælum lögmanns bandarísku flugvélaleigunnar Air Lease Corporation (ALC) um að hlutur þotunnar TF-GPA í tveggja milljarða heildarskuld WOW air nemi aðeins fjórum prósentum.
Guðjón bætir því við að Isavia muni ekkert tjá sig frekar um málið í fjölmiðlum. Isavia hefur kyrrsett þotuna og krefur ALC um tveggja milljarða króna greiðslu á skuld WOW air.
Mál ALC gegn Isavia verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness klukkan 15.40 í dag. Við fyrirtöku málsins fyrir viku síðan fékk Isavia vikufrest til að leggja fram greinargerð, sem rennur því út í dag.
Málflutningur hefst síðan á fimmtudaginn.
Oddur Ástráðsson, lögmaður ALC, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að fyrirtækið viðurkenni enga greiðsluskyldu í málinu og bætti við að málið væri með ólíkindum. Þotan hafi verið notuð í leiguverkefni í Karabíska hafinu síðustu fjóra mánuðina áður en WOW air varð gjaldþrota og því hafi hún ekki verið í rekstri sem hefði búið til lendingargjöld eða önnur notendagjöld Keflavíkurflugvelli.