Hefja formlegar viðræður um uppbyggingu borgarlínu

Stýrihópurinn á að vinna tillögur út frá fyrirliggjandi hugmyndum um …
Stýrihópurinn á að vinna tillögur út frá fyrirliggjandi hugmyndum um framkvæmdir á stofnvegum, innviðum Borgarlínu og hjólreiða.

Settur hefur verið á laggirnar stýrihópur sem á að hefja viðræður til að móta tillögur til ríkisstjórnar og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um næstu skref í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, þeirra á meðal borgarlínunnar, og fjármögnun þeirra.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins og eru þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sögð hafa sett stýrihópinn af stað. Stýrihópurinn er skipaður áðurnefndum ráðherrum, Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra, Degi B. Eggertssyni borgarstjóra Reykjavíkur, Rósu Guðbjartsdóttur, formanni stjórnar Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og varaformanninum Gunnari Einarssyni.

Munu viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til 2033 fara fram í umboði áðurnefndra aðila.

Í erindisbréfi stýrihópsins segir að „hópurinn skuli m.a. vinna tillögur út frá fyrirliggjandi hugmyndum um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og skýrslu viðræðuhóps samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2018 um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Í þeirri skýrslu er að finna samkomulag um tillögu að framkvæmdum á stofnvegum, innviðum Borgarlínu og hjólreiða til næstu 15 ára“.

Fram kom á kynningarfundi með sveitarstjórnarráðherra og fulltrúa SSH, sem haldinn var fyrr í mánuðinum að markmið viðræðnanna væri að móta „sameiginlega sýn um fjármögnun 102 milljarða fjárfestingaráætlunar í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu“. Verður það verk stýrihópsins að leggja fram beinar tillögur um bæði fjármögnun einstakra framkvæmda og verkefna, ásamt verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og á hann að skila tillögum sínum fyrir lok maímánaðar.

Með stýrihópnum mun svo starfa starfshópur sem er skipaður sérfræðingum frá forsætisráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti, auk þess sem SSH skipa þrjá fulltrúa. Verður hlutverk starfshópsins að „fjalla um mismunandi leiðir, valkosti og lausnir í viðræðunum, vinna drög að samningi og nauðsynlegri umgjörð um verkefnið til framtíðar sem lagðar verði fyrir aðila verkefnisins til samþykktar“.

Starfshópinn skipa þau Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Sigrún Ólafsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, Sigurður Helgason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Birgir Björn Sigurjónsson tilnefndur af SSH, Guðrún Edda Finnbogadóttir tilnefnd af SSH, Páll Björgvin Guðmundsson tilnefnd af SSH.

Þá mun Árni Freyr Stefánsson, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, starfa með hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert