Marel fékk Útflutningsverðlaun forseta

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega …
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Ljósmynd/Aðsend

Útflutningsverðlaun forseta Íslands voru veitt í 31. skipti í dag og að þessu sinni var það Marel sem hlaut verðlaunin. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Marel fær verðlaunin fyrir að hafa náð framúrskarandi árangri í framleiðslu og sölu á hátæknibúnaði og kerfum fyrir matvælavinnslu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsstofu.

„Fyrirtækið hefur nú til fjölda ára verið í fararbroddi í þróun hátæknibúnaðar sem notaður er til vinnslu á kjöti, kjúklingi og fiski, allt frá slátrun til pökkunar. Uppbygging Marel undanfarin 15 ár hefur verið einstök og skilað félaginu í fremstu röð á sínu sviði í heiminum. Fyrirtækið hefur nú þróast í alþjóðlegt fyrirtæki með 6.000 starfsmenn, skrifstofur starfræktar í 33 löndum og umboðsmenn í yfir 100 löndum.“

Við sama tilefni var Hallfríði Ólafsdóttur, höfundi Maxímús Músíkús, veitt heiðursviðurkenning fyrir að hafa með starfi sínu borið hróður Íslands víða um heim og stuðlað að jákvæðu umtali um land og þjóð.

Hallfríður og Árni Oddur við athöfnina á Bessastöðum.
Hallfríður og Árni Oddur við athöfnina á Bessastöðum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert