Neyðarástandi verði lýst yfir

Meðal tillagna er að skattur verði tekinn af fargjaldi hvers …
Meðal tillagna er að skattur verði tekinn af fargjaldi hvers farþega sem kemur hingað til lands. mbl.is//Sigurður Bogi

Landvernd skorar á íslensk stjórnvöld að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga, en ályktun þess efnis var samþykkt á aðalfundi samtakanna nú í kvöld.

„Við viljum að þetta sé tekið alvarlega. Aðgerðaáætlunin sem nú er dugar engan veginn. Hún er ótímasett, ómagnbundin og tekur ekki á öllum geirum sem nota mikið af gróðurhúsalofttegundum,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, í samtali við mbl.is.

Í áskorun Landverndar til stjórnvalda eru tekin dæmi í tíu liðum um aðgerðir sem sagðar eru vel gerlegar og skili skjótum samdrætti í losun. Meðal þeirra er tillaga um að skattur verði tekinn af fargjaldi hvers farþega sem kemur hingað til lands, að sala á nýjum dísil- og bensínbílum verði bönnuð frá 2023 og að dregið verði úr framleiðslu dýraafurða um 40% til 2030 samhliða breyttu styrkjakerfi í landbúnaði.

Áskorunin verður send forsætisráðherra Íslands.

Meðal annarra ályktana sem samþykktar voru á fundinum voru að Ísland banni hvalveiðar, stuðningur við þjóðgarð á miðhálendinu og verndun víðerna landsins.

Þá var stefna Landverndar til næstu þriggja ára samþykkt, og ný stjórn kosin. Tryggvi Felixson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar, er nýr formaður stjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert