Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti tvíhliða fund með Nicolu Sturgeon, fyrsta ráðherra skosku heimastjórnarinnar í dag. Ráðherrarnir ræddu meðal annars um samstarfsverkefni smærri ríkja á sviði hagsældar (e. the Wellbeing Economy Government project).
Frá þessu er greint á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands.
Þar kemur fram að Skotland leiðir verkefnið og muni ráðherrarnir taka þátt í stefnumótunarfundi því tengdu á morgun. Ráðherrarnir ræddu einnig um loftslagsmál og um samstarf ríkjanna á sviði sjálfbærrar ferðamennsku.
„Það eru sterk tengsl á milli Íslands og Skotlands og ég fagna mjög samstarfi okkar á sviði hagsældar og sjálfbærrar ferðaþjónustu. Við lítum til stefnumótunar skoskra stjórnvalda í þessum málaflokkum og fleirum, þar á meðal að því er varðar stafrænt kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur á vef Stjórnarráðsins.
„Þá ræddum við sérstaklega um loftslagsmál enda löngu tímabært að þau mál skili sér inn í stefnumótun á öllum öðrum sviðum.“
Forsætisráðherra átti einnig fund með Fionu Hyslop, ráðherra menningarmála, ferðamennsku og alþjóðamála og Roseanna Cunningham, ráðherra umhverfis- og loftslagsmála í skosku heimastjórninni i Edinborg.
Tilefni fundanna er þriggja daga heimsókn forsætisráðherra til Bretlands sem hófst á heimsókn til Glasgow og Edinborgar í dag.