Segja samstöðu ekki glæp

Jórunn Edda Helgadóttir og Ragnheiður Freyja Kristínardóttir.
Jórunn Edda Helgadóttir og Ragnheiður Freyja Kristínardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Ragn­heiður Freyja Krist­ín­ar­dótt­ir og Jór­unn Edda Helga­dótt­ir hafa ákveðið að áfrýja dómi í sam­stöðumál­inu. Þær segja dóm­inn hættu­leg­an tján­ing­ar­frelsi. Samstaða sé ekki glæp­ur en þær voru dæmd­ar í þriggja mánaða skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir að hafa tafið brott­för flug­vél­ar. Jafn­framt var þeim gert að greiða all­an sak­ar­kostnað, alls 2,2 millj­ón­ir króna.

Ragn­heiður Freyja og Jór­unn Edda mót­mæltu brott­vís­un níg­er­íska hæl­is­leit­and­ans Eze Oka­for um borð í flug­vél Icelanda­ir árið 2016. 

Vél­in var á leið til Stokk­hólms er þær stóðu upp og kölluðu yfir farþega og áhöfn að lög­regla væri að flytja Oka­for, sem stadd­ur var í vél­inni, ólög­lega úr landi. Hvöttu kon­urn­ar aðra farþega til að standa upp og hlýða ekki fyr­ir­mæl­um áhafn­ar með það fyr­ir aug­um að tefja brott­för vél­ar­inn­ar, þannig að Eze yrði færður úr flug­vél­inni áður en til flug­taks kæmi.

Mynd­skeið af mót­mæl­un­um var síðan birt á Facecook-síðu sam­tak­anna No Bor­ders Ice­land.

„Við und­ir­ritaðar höf­um til­kynnt um áfrýj­un á dómi Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá 3ja apríl sl. Ástæður þess eru ýms­ar en þar vega þyngst slæm for­dæmi sem dóm­ur­inn myndi skilja eft­ir sig og þar með mögu­leg nei­kvæð áhrif dóms­ins á rétt­indi fólks­ins í land­inu. Ef þess­um dómi er leyft að standa óbreytt­um er hætta á að tján­ing­ar- og mót­mæla­frelsi í land­inu verði sett­ar þröng­ar skorður í krafti op­inna og illa skil­greindra full­yrðinga í texta hans,“ seg­ir í til­kynn­ingu sem þær sendu á fjöl­miðla í morg­un en lög­menn þeirra, Ragn­ar Aðal­steins­son og Sig­urður Örn Hilm­ars­son, sendu í dag inn til­kynn­ingu um áfrýj­un fyr­ir þeirra hönd.

Dóm­ur Héraðsdóms Reykja­vík­ur

Telja dóm­inn illa unn­inn

„Dóm­ur­inn þykir okk­ur vera illa unn­inn og í besta falli studd­ur veik­um rök­um, á meðan lítið sem ekk­ert til­lit er tekið til þeirra skýru og mik­il­vægu lag­araka sem verj­end­ur okk­ar lögðu fyr­ir dóm­inn. Hið sama má raun­ar segja um ákær­una sem dóm­ur­inn bygg­ir á og málið í heild. Í texta dóms­ins ber að kenna al­var­leg­an skort á yf­ir­sýn yfir at­b­urði eins og þeir áttu sér stað og hægt er að öðlast skiln­ing á þegar rýnt er í gögn máls­ins og framb­urð vitna. Til dæm­is má nefna að í dóm­in­um er okk­ur tveim­ur, Jór­unni og Ragn­heiði, ít­rekað ruglað sam­an, sem er til marks um að at­b­urðarás­in, eins og hún átti sér stað, var dóm­ara aldrei skýr.

Þá sýn­ir dóm­ur­inn að okk­ar mati eng­an vilja til skiln­ings á þeim sér­stöku aðstæðum sem uppi voru. Hann virðir að vett­ugi ástæður okk­ar fyr­ir þeim friðsam­legu mót­mæl­um sem við tók­umst á hend­ur og viðheld­ur þannig því virðing­ar­leysi fyr­ir hinum brott­vísaða sem málið sner­ist um. Skír­skot­un­um verj­enda okk­ar til mann­rétt­inda, bæði manns­ins sem brott­vísað var og okk­ar eig­in, vís­ar dóm­ur­inn á bug með einni setn­ingu um hvort atriði, og get­ur hvor­ug tal­ist rök­stuðning­ur. Um tján­ing­ar­frelsi seg­ir til dæm­is þetta eitt: „Þá sæta tján­ing­ar- og funda­frelsi ákveðnum tak­mörk­un­um og geta ekki rétt­lætt hátt­semi ákærðu,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá þeim Jór­unni og Ragn­heiði.

For­dæm­is­gildið hafi mest að segja um ákvörðun þeirra

Það sem mestu máli skipti við ákvörðun okk­ar um að áfrýja mál­inu eru þess­ar og fleiri óná­kvæm­ar og óvandaðar setn­ing­ar í dómn­um, en for­dæm­is­gildi þeirra gæti að okk­ar mati haft hættu­leg áhrif á tján­ing­ar- og mót­mæla­frelsi í land­inu, segja þær enn­frem­ur.

„Annað dæmi um slíka óná­kvæmni er áhersla dóms­ins á óþæg­indi. Dóm­ur­inn fellst á að mót­mæl­in hafi ekki ógnað ör­yggi flug­vél­ar eða farþega. Hann fellst líka á að eng­ar veru­leg­ar taf­ir urðu á flugi vegna mót­mæl­anna. Þess í stað gríp­ur hann til þeirra ný­mæla að staðhæfa að með mót­mæl­un­um höf­um við þó valdið „veru­leg­um óþæg­ind­um“. Ekki er ljóst á texta dóms­ins hverj­ir urðu fyr­ir óþæg­ind­un­um en fyr­ir þau erum við eft­ir sem áður sak­felld­ar.

Ekki er ljóst hvers kon­ar mót­mælaaðgerðir eru yf­ir­leitt hugs­an­leg­ar sem ekki fela í sér ein­hver óþæg­indi. Að dæma megi þátt­tak­end­ur í friðsam­leg­um mót­mæl­um til fang­elsis­vist­ar vegna óljósr­ar hug­mynd­ar um óþæg­indi sem af mót­mæl­un­um stafa fel­ur í sér hættu­legt for­dæmi sem veg­ur að tján­ing­ar­frelsi, funda­frelsi og rétt­in­um til mót­mæla í land­inu yf­ir­leitt.Síðast en ekki síst vilj­um við, með áfrýj­un máls­ins, leggja okk­ar á vog­ar­skál­arn­ar gegn þeirri glæpa­væðingu á sam­stöðu með flótta­fólki sem hef­ur vaxið ásmeg­in um öll Vest­ur­lönd á síðustu miss­er­um. Við sætt­um okk­ur ekki við að vera gerðar að leik­sopp­um í þeirri veg­ferð. Samstaða er ekki glæp­ur,“ seg­ir í til­kynn­ingu sem þær Jór­unn Edda Helga­dótt­ir og Ragn­heiður Freyja Krist­ín­ar­dótt­ir hafa sent á fjöl­miðla.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert