Ragnheiður Freyja Kristínardóttir og Jórunn Edda Helgadóttir hafa ákveðið að áfrýja dómi í samstöðumálinu. Þær segja dóminn hættulegan tjáningarfrelsi. Samstaða sé ekki glæpur en þær voru dæmdar í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tafið brottför flugvélar. Jafnframt var þeim gert að greiða allan sakarkostnað, alls 2,2 milljónir króna.
Ragnheiður Freyja og Jórunn Edda mótmæltu brottvísun nígeríska hælisleitandans Eze Okafor um borð í flugvél Icelandair árið 2016.
Vélin var á leið til Stokkhólms er þær stóðu upp og kölluðu yfir farþega og áhöfn að lögregla væri að flytja Okafor, sem staddur var í vélinni, ólöglega úr landi. Hvöttu konurnar aðra farþega til að standa upp og hlýða ekki fyrirmælum áhafnar með það fyrir augum að tefja brottför vélarinnar, þannig að Eze yrði færður úr flugvélinni áður en til flugtaks kæmi.
Myndskeið af mótmælunum var síðan birt á Facecook-síðu samtakanna No Borders Iceland.
„Við undirritaðar höfum tilkynnt um áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3ja apríl sl. Ástæður þess eru ýmsar en þar vega þyngst slæm fordæmi sem dómurinn myndi skilja eftir sig og þar með möguleg neikvæð áhrif dómsins á réttindi fólksins í landinu. Ef þessum dómi er leyft að standa óbreyttum er hætta á að tjáningar- og mótmælafrelsi í landinu verði settar þröngar skorður í krafti opinna og illa skilgreindra fullyrðinga í texta hans,“ segir í tilkynningu sem þær sendu á fjölmiðla í morgun en lögmenn þeirra, Ragnar Aðalsteinsson og Sigurður Örn Hilmarsson, sendu í dag inn tilkynningu um áfrýjun fyrir þeirra hönd.
„Dómurinn þykir okkur vera illa unninn og í besta falli studdur veikum rökum, á meðan lítið sem ekkert tillit er tekið til þeirra skýru og mikilvægu lagaraka sem verjendur okkar lögðu fyrir dóminn. Hið sama má raunar segja um ákæruna sem dómurinn byggir á og málið í heild. Í texta dómsins ber að kenna alvarlegan skort á yfirsýn yfir atburði eins og þeir áttu sér stað og hægt er að öðlast skilning á þegar rýnt er í gögn málsins og framburð vitna. Til dæmis má nefna að í dóminum er okkur tveimur, Jórunni og Ragnheiði, ítrekað ruglað saman, sem er til marks um að atburðarásin, eins og hún átti sér stað, var dómara aldrei skýr.
Þá sýnir dómurinn að okkar mati engan vilja til skilnings á þeim sérstöku aðstæðum sem uppi voru. Hann virðir að vettugi ástæður okkar fyrir þeim friðsamlegu mótmælum sem við tókumst á hendur og viðheldur þannig því virðingarleysi fyrir hinum brottvísaða sem málið snerist um. Skírskotunum verjenda okkar til mannréttinda, bæði mannsins sem brottvísað var og okkar eigin, vísar dómurinn á bug með einni setningu um hvort atriði, og getur hvorug talist rökstuðningur. Um tjáningarfrelsi segir til dæmis þetta eitt: „Þá sæta tjáningar- og fundafrelsi ákveðnum takmörkunum og geta ekki réttlætt háttsemi ákærðu,“ segir í tilkynningu frá þeim Jórunni og Ragnheiði.
Það sem mestu máli skipti við ákvörðun okkar um að áfrýja málinu eru þessar og fleiri ónákvæmar og óvandaðar setningar í dómnum, en fordæmisgildi þeirra gæti að okkar mati haft hættuleg áhrif á tjáningar- og mótmælafrelsi í landinu, segja þær ennfremur.
„Annað dæmi um slíka ónákvæmni er áhersla dómsins á óþægindi. Dómurinn fellst á að mótmælin hafi ekki ógnað öryggi flugvélar eða farþega. Hann fellst líka á að engar verulegar tafir urðu á flugi vegna mótmælanna. Þess í stað grípur hann til þeirra nýmæla að staðhæfa að með mótmælunum höfum við þó valdið „verulegum óþægindum“. Ekki er ljóst á texta dómsins hverjir urðu fyrir óþægindunum en fyrir þau erum við eftir sem áður sakfelldar.
Ekki er ljóst hvers konar mótmælaaðgerðir eru yfirleitt hugsanlegar sem ekki fela í sér einhver óþægindi. Að dæma megi þátttakendur í friðsamlegum mótmælum til fangelsisvistar vegna óljósrar hugmyndar um óþægindi sem af mótmælunum stafa felur í sér hættulegt fordæmi sem vegur að tjáningarfrelsi, fundafrelsi og réttinum til mótmæla í landinu yfirleitt.Síðast en ekki síst viljum við, með áfrýjun málsins, leggja okkar á vogarskálarnar gegn þeirri glæpavæðingu á samstöðu með flóttafólki sem hefur vaxið ásmegin um öll Vesturlönd á síðustu misserum. Við sættum okkur ekki við að vera gerðar að leiksoppum í þeirri vegferð. Samstaða er ekki glæpur,“ segir í tilkynningu sem þær Jórunn Edda Helgadóttir og Ragnheiður Freyja Kristínardóttir hafa sent á fjölmiðla.