Vigdís kærir úrskurð sýslumanns

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins í ræðustól.
Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins í ræðustól. mbl.is/Hari

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn, hefur kært til dómsmálaráðuneytisins úrskurð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sem féllst ekki á kæru hennar frá því í febrúar vegna lögmætis borgarstjórnarkosninganna árið 2018.

Málið snýst um notkun Reykjavíkurborgar og rannsakenda við Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands sem Persónuvernd gerði athugasemdir við.  

Vigdís segir að sýslumaður hafi bent henni á að samkvæmt stjórnsýslulögum hafi hún kæruleið til dómsmálaráðuneytisins og því ætlar hún, eins og hún talaði um í upphafi málsins, að klára allar kæruleiðir á Íslandi áður en ákvörðun verður tekin um annað.

„Ef ég vísa þessu til ÖSE sem rekur kosningaeftirlit þá taka þau málið ekki fyrir fyrr en kæruleiðir eru tæmdar í heimalandinu,“ segir hún en ætlar fyrst að sjá hvað dómsmálaráðuneytið segir.

„Þetta er þannig vaxið að það er með ólíkindum að stjórnvald eins og Reykjavíkurborg komist upp með kosningasvindl og það hafi engar afleiðingar. Þetta er ekki mín persónulega skoðun að þetta sé kosningasvindl heldur er þetta eftirlitsstofnun ríkisins sem kemst að því að kosningasvindl átti sér stað og fjallar um það í úrskurði sínum.“

Vigdís spyr einnig um fordæmið varðandi næstu kosningar. Um sé að ræða freistnivanda ef afleiðingarnar verða engar. „Í sveitarstjórnarkosningum er það sá meirihluti sem situr sem sér um framkvæmd kosninganna, þannig að þetta er á kolgráu svæði allt saman.“

Þú ætlar þér ekki að gefast upp í þessu máli?

„Nei, það verður að halda þessu máli áfram í ljósi réttlætis og laga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert