Hallfríður, Jóhannes og María fá styrk

Drífa Snædal og Hallfríður Þórarinsdóttir við veitingu styrksins.
Drífa Snædal og Hallfríður Þórarinsdóttir við veitingu styrksins. Ljósmynd/ASÍ

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar hefur veitt Hallfríði Þórarinsdóttur styrk að fjárhæð kr. 550.000 vegna verkefnisins „Innflytjendur í veitingaþjónustu“, en markmið verkefnisins er að kortleggja og greina þátttöku starfsfólks af erlendum uppruna í veitingaþjónustu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ. Sjóðurinn var stofnaður árið 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson, formann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands.

Tvö svæði eru sögð verða í brennidepli í verkefninu; miðbær Reykjavíkur og valdir staðir á Suðurlandi.

„Rýnt verður í þróun og fjölgun erlendra starfsmanna á veitingastöðum á þessum svæðum á undanförnum árum m.t.t. kyns, aldurs, þjóðernis og lengdar í starfi og hlutfallið milli tímabundinna ráðninga, s.s. sumarstarfa og annara dregið fram. Kannað verður hverskonar vinnuumhverfi veitingastaðirnir eru m.t.t. launakjara, framgangs í starfi, þjálfunar í íslensku og félagslegrar þátttöku í samfélaginu,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Verkefnið er sagt framlag til aukins skilnings á vinnuframlagi starfsfólks af erlendum uppruna og þeim breytingum sem eru að verða á íslenskum vinnumarkaði með aukinni þátttöku þeirra.

Fá hundrað þúsund hvort um sig

Sjóðurinn veitir einnig Jóhannesi Hraunfjörð Karlssyni styrk að fjárhæð kr. 100.000 vegna verkefnisins „Frá kreppu til lífskjarasamnings“.

Markmiðið með rannsókninni er að skoða aðkomu hins opinbera að lausn kjarasamninga, einnig að rannsaka með hvaða hætti verðtrygging launa og/eða lánsfjár hafði áhrif á varanleika raunkjarabóta kjarasamninganna með hliðsjón af aðgerðum hins opinbera.

Sömuleiðis veitir sjóðurinn Maríu Liv Biglio Róbertsdóttur styrk að fjárhæð kr. 100.000 vegna verkefnisins „Viðhorf mannauðsstjóra og stjórnenda til eldri starfsmanna á Íslandi“.

Markmiðið með þessari rannsókn er að komast að því hvort það sé vísbending um aldurs mismunun í ráðningu á eldri einstaklingum. Í rannsókninni verður reynt að komast að hversu stór þáttur aldur er innan ráðningarferlisins til að meta hvort þörf sé á vitundarvakningu um eldri starfsmenn og til að berjast gegn aldurstengdri mismunun á vinnumarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert