„Það var ekki ásetningur hans að ráða Gísla af dögum þegar hann hélt heim til hans á föstudagskvöldið. Hann ætlaði að skamma hann. Hann fullyrðir að það hafi verið hreint slys að hann hleypti af skotvopninu.“
Þetta sagði Vidar Zahl Arntzen, verjandi Gunnars Jóhanns Gunnarssonar í Mehamn-málinu, í samtali við mbl.is fyrir nokkrum mínútum. Blaðamaður spurði Arntzen sérstaklega hvort til greina kæmi að ákæra Gunnar fyrir manndráp að yfirlögðu ráði (n. overlagt drap þar sem refsirammi norskra laga er 21 ár) og lagðist lögmaðurinn alfarið gegn því, hann sagði ásetning Gunnars ekki hafa staðið til þess að ráða hálfbróður sinn af dögum fyrr en eftir að hann var kominn í heimsókn til hans.
Arntzen segir skjólstæðing sinn gjörsamlega niðurbrotinn (n. knust), hann hafi rætt við hann síðast í dag og setið með Gunnari í margra klukkustunda yfirheyrslu hjá lögreglunni í Finnmörku sem hafi verið fyrsta yfirheyrslan sem Gunnar hafi samþykkt.
„Honum þykir þetta hryllilega leiðinlegt. Ég get ekki sagt þér enn þá á hverju við munum byggja vörnina, það er allt of snemmt að ræða það, ég veit ekkert hvaða refsikröfu ákæruvaldið mun hafa uppi [þessu síðasta svaraði hann sérstaklega aðspurður, mbl.is hefur ekki náð í Önju Mikkelsen Indbjør saksóknara í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir].“
Arntzen sagði málið hafa legið þungt á skjólstæðingi sínum. „Það er ástæða fyrir því að hann hefur neitað öllum yfirheyrslum þar til í dag, hann er í rúst maðurinn,“ sagði Arntzen með sterkum Finnmerkurframburði við mbl.is.
„Ég biðst einnig velvirðingar á að hafa ekki svarað þér fyrr, það eru allir fjölmiðlar á Norðurlöndunum að hringja í mig,“ sagði hann enn fremur. Arntzen treystir sér ekki til að greina mbl.is frá því hver næstu skref verði í málinu. „Við skulum sjá hvað ákæruvaldið segir, öll lögreglurannsóknin er eftir, lögreglan er enn að rannsaka vettvanginn og safna gögnum, við fetum okkar næstu skref bara eftir því,“ sagði Vidar Zahl Arntzen, verjandi Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, að síðustu í kvöld.