Hátíðardagskrá um land allt í dag

Frá baráttudeginum í Reykjavík á síðasta ári.
Frá baráttudeginum í Reykjavík á síðasta ári. mbl.is/Hari

Hátíðarhöld í tilefni baráttudags verkalýðsins, 1. maí, fara fram í meira en 30 sveitarfélögum á landinu í dag. Þess utan halda stóru stéttarfélögin í Reykjavík kaffisamsæti víðsvegar um borgina.

Viðburðir sem hefur verið tilkynnt um á vef ASÍ

Helstu viðburðir á höfuðborgarsvæðinu

Í Reykjavík verður safnast saman á Hlemmi klukkan 13:00 og hefst kröfuganga klukkan 13:30. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika í göngunni. Útifundur á Ingólfstorgi verður settur klukkan 14:10, en þar verða ræðumenn Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ og Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Fram koma einnig tónlistarkonan GDRN og Bubbi Morthens.

VR býður upp á upphitun fyrir kröfugönguna á Klambratúni klukkan 11:30, en þar verður m.a. fjölskylduhlaup og skemmtun. Boðið verður til kaffisamsætis í anddyri Laugardalshallarinnar eftir útifundinn á Ingólfstorgi. Efling býður félagsmönnum sínum upp á kaffi í Valsheimilinu að Hlíðarenda að hátíðarhöldunum á Ingólfstorgi loknum.

Hátíðahöld á Akureyri á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins á síðasta ári.
Hátíðahöld á Akureyri á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins á síðasta ári. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Byggiðn, Félag iðn- og tæknigreina (FIT), MATVÍS, Grafía og Rafiðnaðarsamband Íslands, verða með opið hús í nýju sameiginlegu húsnæði félaganna að Stórhöfða 31 að göngu lokinni.

Þá verður boðið upp á kaffi að útifundi loknum í Gullhömrum Grafarholti, frá klukkan 15:00 til 17:00.

Í Hafnarfirði verða haldnir samstöðutónleikar í Bæjarbíói í boði Verkalýðsfélagsins Hlífar og Starfsmannafélags Hafnarfjarðar. Tónleikarnir hefjast klukkan 15:00, en húsið opnar klukkan 14:30. Fram koma Mugison, JóiP og Króli og GDRN. Stutt ávörp flytja Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar og Karl Þórsson, formaður STH.

Mikið um að vera víða á landsbyggðinni

Á Akureyri verður haldin kröfuganga klukkan 14:00 og sem hefst við Alþýðuhúsið og lýkur við Hof. Göngufólk mun safnast saman við Alþýðuhúsið klukkan 13:30. Í Hofi flytur ávarp Jóhann Rúnar Sigurðsson úr FMA og Örn Smári Jónsson syngur frumsamin lög. Þá flytur aðalræðu dagsins Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands. Að því loknu koma kemur fram tónlistarfólkið Svenni Þór og Stefánía Svavars. Hátíðardagskránni lýkur svo með sameiginlegum söng á Maístjörnunni og kaffi í Hofi.

Á Ísafirði verður haldin kröfuganga frá Alþýðuhúsinu klukkan 14:00.Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar verður í fararbroddi undir stjórn Madis Maekalle. Að því loknu verður hátíðardagskrá í Edinborgarhúsinu þar sem Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðarleikur. Ræðumaður dagsins er Sigurður Pétursson, sagnfræðingur. Kristín Haraldsdóttir syngur og pistil dagsins flytur Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, formaður FOS-Vest. Þá leikur Kómedíuleikhúsið atriði úr Karíus og Baktus. Kaffiveitingar verða í Guðmundarbúð og kvikmyndasýningar fyrir börn í Ísafjarðarbíói klukkan 14:00 og 16:00.

Úr kröfugöngu 1. maí á Akureyri.
Úr kröfugöngu 1. maí á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Á Egilsstöðum hefst hátíðardagskrá á Hótel Héraði  klukkan 10:30 auk morgunverðar. Boðið verður upp á tónlistaratriði og ræðumaður er Sverrir Kristján Einarsson.  

Á Selfossi verður kröfuganga við undirleik Lúðrasveitar Selfoss klukkan 11.00 frá Austurvegi 56, að Hótel Selfossi þar sem skemmtun fer fram. Félagar úr Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Ræðumenn dagsins eru Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB og Álheiður Österby námsmaður. Leikfélag Selfoss sýnir atriði úr leikritinu „Á vit ævintýranna“. Unnur Birna og Dagný Halla Björnsdætur syngja nokkur lög. Þá verður teymt undir börnum í Sleipnishöllinni frá klukkan 12:30 til 14:30.

Sem fyrr sagði má finna upplýsingar um fleiri viðburði víðsvegar um landið á vef ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert