Vesturíslensk hjón voru svikin af óprúttnum aðila eftir að hafa svarað fasteignaauglýsingu fyrir íbúð á Hringbraut 65 í Reykjavík.
Hjónin sem vilja ekki koma fram undir nafni lögðu fram tryggingarfé fyrir leiguíbúðinni gegnum heimasíðu sem þau töldu að væri á vegum Airbnb. Heimasíðan er afar lík heimasíðu leigurisans Airbnb en við nánari skoðun sést að um falsaða síðu er að ræða.
Samskonar svindl átti sér einnig stað fyrir leiguíbúð í Bláhömrum í Grafarvogi. Einstaklingur undir sama nafni reyndi þar að svíkja fé út úr 29 ára gömlum íslenskum karlmanni. Þá tapaði Ada Szuba, pólsk kona, 400.000 kr. á sama svindlara sem gengur undir nafninu Urha Polona.
Svindlarinn segist vera einstæð móðir búsett í Berlín. Hún segist hafa eignast íbúðirnar eftir skilnað. Þá þarf að borga tryggingu áður en hún flýgur til Íslands til að sýna íbúðirnar. Grunlaus fórnarlömb telja tryggingarféð í öruggum höndum Airbnb, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.