Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til fjögurra ára.
Um er að ræða fjórðu framkvæmdaáætlun ríkisins í barnavernd en með henni er blásið til sóknar í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.
„Áætlunin er metnaðarfull og hefur það að markmiði efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum svo hægt verði að koma að vanda barna eins fljótt og auðið er. Þá er henni ætlað að fjölga gagnreyndum úrræðum sem mæta þörfum barna og draga þannig úr líkum á að vandamál þróist og verði alvarleg,“ segir Ásmundur Einar í tilkynningu.
„Framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir aukinni samvinnu og samstarfi á milli ríkis og sveitarfélaga og að lögð verði 600 milljón króna fjáraukning í að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu, ekki síst í nærumhverfi barna.“
Framkvæmdaáætlunin var unnin í samráði við helstu hagsmunaaðila, meðal annars um áhersluatriði og forgangsröðun verkefna. Félagsmálaráðuneytið, Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir sveitarfélaga skulu vinna samkvæmt áætluninni með meginmarkmið barnaverndarlaga að leiðarljósi; að tryggja viðunandi uppeldisskilyrði barna og að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð.
„Eigi þau markmið að nást þarf að tryggja með afdráttarlausum hætti samstarf ýmissa kerfa sem eiga snertifleti við börn og fjölskyldur og veita þeim stuðning og aðstoð eins fljótt og auðið er. Það þýðir að grípa þarf til aðgerða miklu fyrr en þegar þröskuldur til inngripa á grundvelli barnaverndarlaga næst,“ segir Ásmundur Einar í tilkynningunni.