„Risastórar áskoranir fram undan“

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Ljósmynd/ASÍ

Risastórar áskoranir eru fram undan á breyttum vinnumarkaði að sögn Drífu Snædal, forseta ASÍ. Að hennar mati þarf verkalýðshreyfingin að breytast með vinnumarkaðnum, en þó þurfa félagsmenn áfram að stjórna ferðinni. Það er styrkur hreyfingarinnar að félagsmenn komi í miklum mæli að borðinu og nálgun íslenskra verkalýðsfélaga í kjarabaráttu hefur vakið athygli út fyrir landsteinana, að því er fram kemur í ávarpi Drífu í tilefni baráttudags verkalýðsins, 1. maí.

„Samfélög þar sem jöfnuður er mikill eru undantekningalaust betri samfélög en hin þar sem ójöfnuður er ríkjandi,“ segir Drífa. „Ekki bara njóta sín fleiri einstaklingar í slíku umhverfi heldur blómstra fyrirtæki líka, nýjar hugmyndir ná að skjóta rótum og menningin blómstrar. Barátta verkalýðshreyfingarinnar er því ekki barátta einstakra hópa fyrir betri kjörum heldur barátta fyrir betri heild og betra samfélagi. Það er okkur öllum í hag að börn hafi jöfn tækifæri til að mennta sig, njóta tómstunda og annarra lífsgæða. Ef við takmörkum möguleika einstakra hópa á því að þroskast og þróast erum við að búa til vandamál,“ segir hún.

Drífa Snædal og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, við kynningu …
Drífa Snædal og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, við kynningu lífskjarasamninganna í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Hari

Grafi undan trú á lýðræði og andúð gegn minnihlutahópum

Drífa gerði misrétti að umtalsefni og sagði framleiðni í heiminum hafa þrefaldast síðustu tuttugu ár. Auðurinn hefði þó ekki skilað sér til vinnandi fólks gegnum laun eða bætta innviði.

„Þvert á móti hafa möguleikar til auðsöfnunar og skattaundanskota aukist hjá fáum ofur ríkum einstaklingum og stórfyrirtækjum. Fólk, þjóðir og samfélög sem farið hafa halloka kenna stjórnmálunum eðlilega um sem hefur leitt til þess að traust til stjórnmálamanna fer stöðugt minnkandi. Það sem verra er, traust til lýðræðis fer þverrandi,“ segir Drífa og bendir á að einhverjir sjái sér hag í því að grafa undan trú annarra á lýðræðinu og ali jafnvel á andúð gagnvart minnihlutahópum.

„Það er gömul saga og ný að til að ná völdum er minnihlutahópum stundum att saman, eins og til dæmis öryrkjum og innflytjendum eða láglaunafólki og eldri borgurum. Það er nauðsynlegt fyrir lýðræði og mannréttindi að við látum ekki glepjast af slíkum tilraunum. Baráttan hlýtur alltaf að snúast um að auðnum sé skipt með sanngjörnum hætti og að stórfyrirtæki og auðmenn greiði sinn sanngjarna skerf til samfélagsins,“ segir Drífa.

Drífa segir þá áherslu ASÍ og aðildarfélaga þess að breyta samfélaginu með sköttum og öðrum stjórnvaldstækjum hafa vakið athygli út fyrir landsteinana. Þegar verkalýðshreyfingin annars staðar berðist í bökkum og háði varnarbaráttu fyrir áunnum réttindum sækti verkalýðshreyfingin hér á landi fram með miklar kröfur til stjórnvalda um jafnara og betra samfélag fyrir alla.

„Í aðdraganda kjarasamninga fáum við að heyra að lægstu laun séu há hér á landi í samanburði við önnur lönd og jöfnuður hvergi meiri. Gott og vel, en önnur lönd eiga ekki endilega að vera viðmiðið heldur það sem okkur sjálfum þykir sanngjarnt og réttlátt. Við erum því í forystu annarra landa um þessar mundir og bræður okkar og systur um heim allan fylgjast með,“ segir Drífa.

Vinnumarkaðurinn er að breytast

Drífa segir það styrk íslenskrar verkalýðshreyfingar að félagsaðild sé almenn, en einstök stéttarfélög séu þó fullvalda um sín málefni. Lítil miðstýring geri það að verkum að fólk hafi almennt góða möguleika á að hafa áhrif í sínum félögum.

„Ákvarðanir um kröfugerð í aðdraganda samninga eru teknar á opnum félagsfundum. Fólk kýs sjálft um hvort eigi að boða til verkfalla og félagsmenn kjósa svo um þann samning sem undirritaður hefur verið. Það er sjaldgæft í löndunum í kringum okkur að lýðræði sé svona mikið innan verkalýðshreyfingarinnar. Þetta breiða lýðræði og gagnsæi innan hreyfingarinnar er fjöregg sem við eigum sannanlega að viðhalda og vernda,“ segir Drífa, en bendir þó á að hreyfingin þurfi þó að þróast í takt við tíðarandann. Fram undan séu „risavaxnar áskoranir“. 

„Vinnumarkaðurinn er að breytast. Ekki bara störfin sem unnin eru heldur einnig samband atvinnurekenda og launafólks. Fólk er í sívaxandi mæli ráðið í verkefnavinnu, jafnvel hjá stórfyrirtækjum þar sem æðstu yfirmenn eru ósýnilegir og verkefnin er hægt að vinna hvar sem er í heiminum,“ segir Drífa. „Verkalýðshreyfingin þarf að breytast með vinnumarkaðnum en við verðum þó alltaf að halda í staðarþekkingu og grunneiningar þar sem félagsmenn stýra ferðinni. Við megum aldrei gefa afslátt af áunnum réttindum, kjörum og öryggi á vinnustað heldur leita leiða til að bæta enn frekar í,“ segir hún.

„Það eru stór verkefni sem bíða okkar en verkalýðshreyfingin á Íslandi er vel skipulögð grasrótarhreyfing og tilbúin í það sem koma skal. Krafa okkar í dag er meiri jöfnuður og samfélag þar sem allir fá tækifæri til að blómstra. Förum þangað og öllum farnast betur,“ segir Drífa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert