Bandaríska flugvélaleigan Air Lease Corporation (ALC) er sögð hafa átt í hótunum við stjórnendur Isavia og íslensk ferðaþjónustufyrirtæki vegna kyrrsetningar farþegaþotunnar TF-GPA.
Fréttablaðið greinir frá þessu og segir að fulltrúar ALC hafi gefið stjórnendum Isavia til kynna að spjótum verði mögulega beint að þeim persónulega.
Dulbúnar hótanir um fjárhagstjón íslenskra flugfélaga og ferðaþjónustufyrirtækja munu vera á meðal þess sem fulltrúarnir hafi beitt í sínum deilum við Isavia.
Einnig er greint frá því að sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hafi átt fundi hér á landi vegna málsins en tengsl stjórnarformanns og stofnanda ALC munu vera sterk í Bandaríkjunum og ná til ráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump.
Isavia krefur ALC um tveggja milljarða skuld vegna TF-GPA en WOW air var með vélina á leigu þar til flugfélagið varð gjaldþrota.