Isavia getur ekki krafist tveggja milljarða

Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia.
Hlynur Halldórsson, lögmaður Isavia. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú rétt um klukkan 16 var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjaness í máli bandaríska flugvélaleigufyrirtækisins ALC gegn Isavia vegna kyrrsetningar flugvélar á Keflavíkurflugvelli sem WOW air var með á leigu. Isavia þarf ekki að losa vélina, en getur ekki krafist tveggja milljarða eins og kyrrsetning vélarinnar átti að tryggja. Málskostnaður fellur niður.

Í úrskurði segir að Isavia sé heimilt að aftra brottför vélarinnar vegna þeirra gjalda sem tengjast vélinni sjálfri. Ekki fellur það yfir aðrar skuldir WOW air við Isavia vegna annarra loftfara sem eru í rekstri. Forráðamenn ALC sögðu við mbl.is að það sé einmitt það sem Isavia var boðið og jafngildi ekki þeirri tveggja milljarða króna kröfu sem vélin átti að tryggja. 

Viðbrögð við dómnum birtast hér á mbl.is innan skamms.

Málið snýst um vél í eigu ALC, TF-GPA, sem Isavia kyrrsetti þann 28. mars í kjölfar gjaldþrots WOW air. Tekist var á fyrir dómi í morgun um hvort Isavia hefði heimild í lögum til þess að kyrrsetja vélina til tryggingar tveggja milljarða skuldar WOW air við Keflavíkurflugvöll.

Í málflutningi lögmanna ALC kom meðal annars fram að laga­ákvæðið um rétt til kyrr­setn­ing­ar félli aðeins und­ir nú­ver­andi umráðahafa farþegaþotu. Nú er ALC umráðandi vél­ar­inn­ar á ný eftir gjaldþrotið og því hafi Isa­via ekki rétt til þess að beita ákvæði loft­ferðarlaga til þess að kyrr­setja vél­ina.

Lögmaður Isavia sagði hins vegar vél­in hafi verið skráð í umráði WOW air við kyrr­setn­ingu vél­ar­inn­ar 28. mars. Skrán­ingu hafi ekki verið breytt hjá Sam­göngu­stofu fyrr en þann 4. apríl. Þá hafi ekki verið nauðsynlegt að tilkynna bæði umráðanda og eiganda vélarinnar um kyrrsetningu, en Skúli Mogensen, fyrrum forstjóri WOW air, hafi staðfest móttöku á kröfu Isavia.

Oddur Ástráðsson og Eva B. Helgadóttir, lögmenn ALC.
Oddur Ástráðsson og Eva B. Helgadóttir, lögmenn ALC. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert