Lífshorfur sjúklinga sem greinast með lungnakrabbamein hafa batnað umtalsvert á síðustu tveimur áratugum. Þetta kemur fram í vísindagrein rannsóknarhóps á Landspítala og við Háskóla Íslands sem birtist nýlega í Annals of Translational Medicine.
Þar kemur m.a. fram að gera megi ráð fyrir því að um 90% sjúklinga séu á lífi ári eftir aðgerð en áður var hlutfallið 75%.
„Ástæður fyrir þessari jákvæðu þróun eru sennilega margþættar en þyngst vegur sú staðreynd að sjúklingarnir greinast fyrr og með smærri æxli auk þess sem greining þeirra og mat á útbreiðslu er nákvæmari. Þá sýndi rannsóknin að 99% sjúklinga lifa aðgerðina af sem telst mjög góður árangur í alþjóðlegum samanburði,“ segir í fréttatilkynningu frá rannsóknarhópnum.
Rannsóknin náði til 650 sjúklinga sem gengust undir skurðaðgerð á lunga vegna lungnakrabbameins á árunum 1991 til 2014. Fyrsti höfundur greinarinnar er Hannes Halldórsson kandídat en Tómas Guðbjartsson, prófessor og yfirlæknir á Landspítala, stýrði rannsókninni.
Tómas sagði í viðtali við Morgunblaðið að margt jákvætt hefði gerst varðandi meðferð sjúklinga með lungnakrabbamein að undanförnu. Byrjað var að framkvæma blaðnám með brjóstholssjá (VATS) um síðustu áramót hér á landi. Þær aðgerðir falla því utan þess tíma sem rannsóknin náði til. Í VATS-aðgerð er hægt að fjarlægja allt lungnablaðið í gegnum 4 sentimetra langan skurð með aðstoð sjónvarpsmyndavélar. Gangi allt að óskum er hægt að útskrifa sjúklinginn 2-3 dögum eftir aðgerð. Áður var gerður 10-15 sentimetra brjóstholsskurður sem krafðist vikulangrar innlagnar á sjúkrahúsi. Einnig eru komnar nýjungar í geislameðferð lungnakrabbameina og ný líftæknilyf sem gefa góða raun. Tómas sagði mikilvægt að draga sem mest úr reykingum því þær valda um 90% lungnakrabbameina.