Flokkur fólksins leggst gegn því að hugtakið þungunarrof verði leitt í lög með frumvarpi til laga um þungunarrof og að það verði tekið upp í stað hugtaksins fóstureyðing, samkvæmt breytingartillögu flokksins. Jafnframt segir flokkurinn að fyrirliggjandi frumvarp opni á að slíkar aðgerðir verða heimilaðar fram að 22. viku meðgöngu.
Fram kemur í nefndaráliti Flokks fólksins að í gildandi lögum er kveðið á um að þungunarrof umfram 12. viku sé skilyrt við að fyrir liggja „ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu eða að miklar líkur séu á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.“
Bendir flokkurinn á að ekki er fyrrnefndir fyrirvarar í fyrirliggjandi frumvarpi og því heimili það þungunarrof í öllum tilvikum fram að 22. viku meðgöngu. „Það er langt í frá að vera hafið yfir allan vafa að ótímabær fæðing við lok 22. viku þýði að fyrirburinn geti ekki lifað af. Um er að ræða aðgerð sem bindur enda á líf ófædds barns sem hugsanlega gæti lifað af fæðingu á þessu stigi meðgöngunnar.“
Leggur flokkurinn til að fyrirhuguð „óhófleg rýmkun“ á lögum um þungunarrof verði ekki samþykkt og að ekki verði heimilt að framkvæma þungunarrof umfram 12. viku án fyrrnefndra fyrirvara.
„Fóstureyðing er hugtak sem endurspeglar þann verknað sem felst í aðgerðinni,“ að mati Flokks fólksins og leggst flokkurinn alfarið gegn þeirri hugtakanotkun sem frumvarpið byggir á.
„Hugtakið þungunarrof er hins vegar tilraun til þess að horfa fram hjá alvarleika aðgerðarinnar og freista þess að færa hana í búning hefðbundinnar læknisaðgerðar svo mögulega verði horft fram hjá því að verið er að binda enda á líf ófædds barns í móðurkviði,“ segir í nefndarálitinu.