Ekki hægt að bíða og vona

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, á ársfundinum í dag.
Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, á ársfundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vandamálið er að með því að bíða og vona, telja að þeir sem á eftir okkur koma geti leyst vandamálin, getur sú alvarlega þróun orðið að vandamálin verði óleysanleg.“ Þetta kemur fram í ávarpi Kristínar Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar, en ársskýrsla hennar kom út í dag.

Kristín tekur dæmi af því þegar hún og dóttir hennar horfðu á fréttir og sáu viðskiptavin kaupa vöru, pakkaða í plast, en innan við ysta plastlagið voru meiri plastumbúðir eins og oft er. 

„Viðskiptavinurinn spurði hvort þetta væri ekki bara „seinni tíma vandamál“ og dóttir mín upplifði að samfélagið væri að segja við hana að neysla okkar í dag væri ekki okkar vandi heldur verkefni komandi kynslóða að leysa,“ skrifar Kristín.

Hún segir að við könnumst við þennan þankagang. Við kaupum oft án umhugsunar, án þess að velta fyrir okkur umhverfisáhrifum, eða hvort við höfum efni á vörunni eða þurfum á henni halda. 

„En kjarni umhverfismála í dag er í raun sá að okkar neysla, hvað við erum að gera eða gera ekki, verður svo sannarlega seinni tíma vandamál ef við grípum ekki til aðgerða nú þegar,“ skrifar Kristín en ávarp hennar má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert